154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

efnahagsástand og áherslur fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hlýjar kveðjur og árnaðaróskir með þetta mikilvæga embætti fyrir land og þjóð. Það er ekki bara mikilvægt fyrir ríkisstjórnina heldur mikilvægt fyrir þjóðina þannig að hæstv. ráðherra fær hlýjar kveðjur.

Ég vil draga fram að á þessum tímum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna lækkað núna fjóra ársfjórðunga í röð. Við erum að upplifa það að Ísland rekur lestina þegar kemur að hagvexti á mann á Evrópusvæðinu. Við erum líka að sjá að báknið hefur aldrei verið stærra, vaxtagjöldin eru þau mestu og hæstu í Evrópu, við sjáum útþaninn ríkissjóð og fjárlagahalla sem þessi ríkisstjórn ætlar síðan að láta næstu ríkisstjórn leysa þannig að ég verð að segja að hreinasta vinstri stjórn hefði ekki getað skrifað betra handrit en þetta. Við sjáum að þessi lausatök ríkisstjórnarinnar eru heimilunum mjög dýrkeypt. Í Danmörku er verðbólga, sem var 8% fyrr á árinu, komin í kringum 1%. Það sama er með Færeyjar, verðbólgan þar er komin undir 4% fyrir utan að þar eru þrefalt lægri vexti en hér. En á meðan eru íslensk heimili að bugast af þessari vaxta- og krónuþreytu. Við erum að sjá afborganir af lánum heimilanna fara úr 150.000 kr. í 350.000 kr. og vaxtakostnaður bænda stuðlar að því að þar er lítil sem engin nýliðun og mikil bugun þar í gangi. Litlu og meðalstóru fyrirtækin, nýsköpunarfyrirtækin, eru að bugast gagnvart þessum vaxtakostnaði og þessari krónuþreytu. En á meðan það átti að vera skjaldborg um heimilin þá slær ríkisstjórnin skjaldborgina um sig sjálfa.

Við í Viðreisn höfum ítrekað varað við þessum lausatökum og þessari þenslu. Við höfum komið með tillögur um aukið aðhald, lækkun skatta, einfaldað regluverk o.s.frv. Mig langar að vita hverjar verða helstu áherslur nýs ráðherra í þessum málum, hvort við megum vænta þess að það verði m.a. varðstaða um að skattar verði ekki hækkaðir á meðaltekjuhópana og á millistéttina. (Forseti hringir.) Þar drögum við í Viðreisn línuna. Nóg er nú skattheimtan samt hér, hún er með því mesta í Evrópu. Við erum ekki að fara þá leið (Forseti hringir.) og ég vona að hæstv. ráðherra geti sammælst mér í þeim efnum.