154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

utanríkis- og alþjóðamál.

[10:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég hvet íslensk stjórnvöld, íslensku ríkisstjórnina og hæstv. ráðherra til að gera slíkt hið sama; að leggja mat á það hvernig þessi stuðningur er nýttur, hvert hann rennur, til að þá vonandi tryggja að hann nýtist fólki sem er þarna í neyð frekar en að þessi hryðjuverkasamtök taki eitthvað af honum til sín.

En síðasta spurningin, sem hæstv. ráðherra vannst ekki tími til að svara í fyrri umferð, lýtur að því hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að nágrannalönd Ísraels og Palestínu taki við flóttamönnum frá Gaza, því það hafa þau ekki viljað gera. Þau hafa að því er virðist ekki viljað taka við einum einasta flóttamanni frá Gaza-svæðinu, ekki Egyptar sem loka landamærunum á mjög tryggilegan hátt, ekki önnur nágrannalönd, hvað þá Persaflóaríkin sem þó ættu að vera mjög vel í stakk búin til að aðstoða þetta fólk ef samúðin er raunverulega jafn mikil með því og þau halda fram.