154. löggjafarþing — 19. fundur,  24. okt. 2023.

umframdauðsföll.

[13:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir að taka upp þráðinn frá fyrirspurn í febrúar. Það er rétt að þá vísaði ég í það að þetta þyrfti að skoða betur og mér finnst það alltaf sjálfsagt mál þegar maður hefur ekki svör á reiðum höndum og sérstaklega fjölmargar spurningar sem vakna í kjölfar þess faraldurs sem við vorum í og allra þeirra ráðstafana sem þarf að rannsaka og skoða.

Þetta er tvíþætt í fyrirspurn hv. þingmanns og snýr annars vegar að umframdauðsföllum sem við ræddum þá og síðan að andvanafæðingum. Það er rétt að embætti landlæknis fylgist með tölfræði sem snýr að andlátum og ég vísaði til þess að það þyrfti að eiga sér stað skoðun á því og þeim upplýsingum sem hafa komið fram hjá Hagstofunni og í samanburði frá Eurostat. Þar hefur verið lögð áhersla á að skoða umreiknaðar tölur út frá íbúafjölda. Slíkir útreikningar hafa hingað til gefið til kynna að fjöldi dauðsfalla sé ekki að aukast sé litið yfir lengra tímabil. Embætti landlæknis mun áfram fylgjast með þessari þróun og greina stöðuna. Við útreikning á umframdauðsföllum á Íslandi eftir mánuðum var reiknaður út meðalfjöldi allra andláta á hverja 100.000 íbúa fyrir hvern mánuð frá árinu 2012 til og með ársins 2019 ásamt 95% öryggisbili fyrir meðalfjölda andláta hvers mánaðar, til að átta sig á þessu og fá einhvern raunhæfan samanburð. Niðurstaðan er að umframdauðsföll á Íslandi eru ekki hlutfallslega fleiri í samanburði við lönd í ESB. Það er mikilvægt að taka tillit til mannfjölda og miða andlát við íbúafjölda, sem hefur hækkað hratt hér á landi og ég hygg að sé kannski meginástæðan fyrir því að það vantaði inn í tölurnar. Þessi leiðrétting er núna að eiga sér stað í samvinnu við Hagstofuna og Eurostat að því er ég best veit. (Forseti hringir.) En auðvitað fylgjumst við grannt með tölum og ábendingum og í seinna andsvari mun ég koma inn á andvanafæðingar. Það er auðvitað sjálfsagt mál að veita áheyrn, skrá aukaverkanir og fylgjast með þessari tölfræði.