154. löggjafarþing — 19. fundur,  24. okt. 2023.

kvennastéttir og kjarasamningar.

[13:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir spurninguna. Hún er ansi stór. Það skal sagt hér að ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að samfélag okkar hafi þó þrátt fyrir allt og allt batnað. Ég vil líka ítreka það að þrátt fyrir allan vilja okkar til að bæta öll kerfi, þar með talið heilbrigðiskerfið að sjálfsögðu, þá eigum við öflugt heilbrigðiskerfi fyrst og fremst fyrir mannauðinn. Það er líka, í gegnum árin, ólíku saman að jafna. Ef við skoðum þetta í samhengi ára og áratuga um starfsaðstæður, þá hafa þær batnað verulega. Öll umönnun er miklu auðveldari inni á hjúkrunarheimilum með öflugri tækni og öflugri tækjum heldur en var. Það hefur líka átt sér stað mikil þróun þegar kemur að lyfjum.

Hv. þingmaður kemur síðan inn á laun. Ég get sagt það hér áður en ég ræði það — af því að kjaramálin eru svona óbeint okkar allra og auðvitað erum við með ákveðið form á því, og við eigum auðvitað að útrýma einhverju sem er launamunur kynjanna. Það á bara ekki að þekkjast og við höfum auðvitað reynt að byggja tæki inn í okkar kerfi til þess. Ég held að við finnum engan sem gæti staðið hér og sagt að það væri eðlilegt að það væri einhver launamunur. Hann á ekki að vera og ef hann er óútskýrður þarf að skýra hann. En ég vil koma inn á það sem við erum að gera í ráðuneytinu sem snýr að þessu varðandi mannauðinn og framtíðina, sem er kannski stóra málið. (Forseti hringir.) Ég kem inn á það í seinna andsvari.