154. löggjafarþing — 19. fundur,  24. okt. 2023.

kynjajafnrétti í þróunarsamvinnu.

[14:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég held að það hafi vel tekist til hjá okkur á undanförnum árum varðandi áhersluna á jafnréttismál í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og stefnumótun allri í utanríkismálum. Eins og við vitum hefur jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna og stúlkna verið leiðarljós í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands um langt árabil og má segja að það sé bæði sértækt og þverlægt markmið í nýrri þróunarsamvinnustefnu sem verður lögð fyrir þingið á næstu dögum. Ef við skoðum mælingar á framlagi Íslands og berum okkur þannig saman við stöðuna í öðrum löndum má sjá af mælingum OECD DAC að Ísland er í fjórða sæti hvað varðar eflingu kynjajafnréttis af framlagsríkjum OECD DAC, en um 80% af tvíhliða þróunarsamvinnufé okkar fer til verkefna sem miða að eflingu kynjajafnréttis. Ég vil benda á að í nýrri áætlun okkar um framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu næstu árin, frá 2024–2028, er gert ráð fyrir enn aukinni áherslu á þessa málaflokka. Framlög okkar rata til sérstakra alþjóðlegra stofnana eins og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, en áherslurnar eru hins vegar líka þær sömu í tvíhliða aðstoð.