154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að segja: Takk, konur, kvár og þið öll um allt land fyrir daginn í gær. Það var gjörsamlega mögnuð tilfinning að standa á Arnarhóli og finna þessa gríðarlega góðu samstöðu.

Að öðru. Fyrr á þessu ári skrifaði ég grein um áhyggjur mínar af stóraukinni notkun á samfélagsmiðlum og þær eru svo sannarlega ekki innistæðulausar, ekki síst þegar kemur að unga fólkinu. Allar tölur og gögn segja það sama: Félagsleg einangrun, vanlíðan, alvarlegar sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg, þunglyndi og kvíði hefur aukist svo um munar og hefur þunglyndi meðal ungmenna á aldrinum 15–24 ára fjórfaldast síðasta áratug samkvæmt frönskum rannsóknum.

Skuldinni er allt of oft skellt á börnin sjálf, að þau séu bara of mikið í símanum, að yngri kynslóðir fólks séu á einhvern hátt veikgeðja og hafi minni þrótt til að standast þessa freistingu. En hvert er viðnám þeirra sem alast upp með samfélagsmiðlum og sjá okkur foreldrana skruna upp og niður skjámyndina í fullkomnu reiðileysi? Og hvers erum við megnug þegar tækið við nefbroddinn á okkur hefur verið sérstaklega hannað af færustu vísindamönnum heims til að auka óhóflega neyslu á því sem fyrir augu ber og ánetja okkur og börnin okkar viðbrögðum og viðurkenningu annars fólks, því eitt læk getur dimmu í dagsljós breytt sem dropi breytir veig heillar skálar?

Nú berast fréttir af því að 40 ríki Bandaríkjanna hafi stefnt Meta, sem rekur Facebook og Instagram, vegna þess að þau telja að fyrirtækið hagnist á þjáningu barna og skaði andlega heilsu þeirra. Það kemur fram í stefnunni sem lögð hefur verið fram að Meta hafi notfært sér unga fólkið til að vera sem mest á samfélagsmiðlum til að hámarka fjárhagslegan ávinning fyrirtækisins. En þetta á líka við um aðra samfélagsmiðla eins og TikTok, YouTube og Snapchat. Bandaríski landlæknirinn Vivek Murthy hvatti á þessu ári til þess að gripið yrði til aðgerða til að tryggja að umhverfi samfélagsmiðla ylli ungum notendum ekki skaða og sagði, með leyfi forseta:

Við horfum upp á neyðarástand í geðheilbrigðismálum ungmenna og ég óttast að samfélagsmiðlar séu einn helsti drifkraftur þessa ástands. Á þessu þarf að taka tafarlaust.

Ég tek undir þetta en hef ekki lausnina og við fullorðna fólkið verðum sannarlega að vera fyrirmyndir og sýna ábyrgð.