154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

velferð dýra.

12. mál
[16:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp Flokks fólksins um breytingu á lögum um velferð dýra, bann við blóðmerahaldi. Ég er stoltur af þessu frumvarpi. Á Íslandi er virkur iðnaður sem felst í blóðtöku úr lifandi hrossum í því skyni að vinna úr blóðinu hormón sem selt er líftæknifyrirtæki til að framleiða megi frjósemislyf og hvata til að auka frjósemi í svínaeldi til manneldis. Líftæknifyrirtækið borgar hátt verð fyrir hormónið og því hefur blóðmerahald aukist til muna á Íslandi á síðustu árum. Á nokkrum stöðum er þetta orðið stórbúskapur með allt að 200 hryssur í blóðmeraframleiðslu. Miklir fjárhagslegir hvatar eru til staðar til að hámarka afköstin og því eru blóðmerar látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er eða þar til hormónið fyrirfinnst ekki lengur í blóði þeirra. Þá er þeim slátrað og folöldin fara jafnan beint í sláturhús. Á meðan hormónið finnst í blóði meranna er framkvæmd blóðtaka á viku fresti, 5 lítrar í hvert skipti 7–8 sinnum yfir sumarið.

Íslenski hesturinn en minni en hefðbundið hestakyn og því er blóðmagn í íslenskum hryssum aðeins 35–37 lítrar. Að níðast á einu dýri til þess að níðast á öðru dýri hlýtur að vera það ömurlegasta sem til er. Ef við förum að hugsa út í hvers vegna verið er að níðast á einu dýri til að níðast á öðru dýri og í hvaða aðstæðum það er gert hlýtur okkur að blöskra og við eigum að gera kröfu um að þessu verði hætt strax.

Blóðmerasögur. Já, 5 lítrar af blóði allt að 8 sinnum úr fylfullri meri með folald er ekkert annað en mjög slæmt og hryllilegt dýraníð. Gleymum því ekki að þetta er meri með folald. Hún er með líf inni í sér. Eini tilgangurinn með því að ná þessu hormóni úr blóði merarinnar er síðan að níðast á öðru dýri, gyltu, til að gera hana tilbúna til að eignast grísi löngu áður en hún á að vera tilbúin til þess. Það er svo ótrúlegt að þetta skuli viðgangast.

Það sem hefur kannski slegið mig mest er að þegar maður ræðir þetta við fólk úti í bæ þá hristir það hausinn og segir að þetta geti ekki átt sér stað, að við getum ekki verið svona ill að hafa búið til svona iðnað. Það er ekkert fallegt við þetta. Það er ekki hægt að gera þetta fallega. Dýrin eru skelfingu lostin. Það er útilokað að beita þeirri aðferð að binda upp höfuð dýra til að þvinga nál í hálsinn á þeim til að ná út blóði í þeim eina tilgangi að níðast svo á öðru, til þess að auka hvað? Framleiðslu á kjöti. Og þeir berjast með kjafti og klóm til að fá að halda þessu áfram, blóðmerabændur. En við eigum að hjálpa bændum sem hafa einhvern veginn villst af vegi og telja sig nauðsynlega þurfa að fara út í þennan iðnað, hjálpa þeim að komast í annað. Ég trúi ekki öðru en að ef þessir bændur gætu farið í annað og fengið sömu tekjur fyrir það myndu þeir gera það á stundinni.

Okkur ber skylda til að stöðva þetta. Okkur ber skylda til að vernda dýrin. Það gerir okkur ekki betri að aðrir séu verri og það er engin afsökun þó að einhverjir reyni og ætli sér virkilega og vilji gera þetta vel. Það er ekki hægt. Þetta verður alltaf maðurinn að níðast á dýrinu til að ná blóði til að framleiða blóðpeninga og við skulum stoppa það. Sagt er að dýralæknar taki blóð undir opinberu eftirliti. Mér líður ekkert betur með það vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að það er misbrestur á þeirri framkvæmd og það hefur komið í ljós.

Annað sem ég átta mig eiginlega ekki á og kom fram og átti að vera til góðs, held ég, er að merarnar séu staðdeyfðar. Ég sé ekkert gott við það. Þær eru auðvitað staðdeyfðar vegna þess að þær finna til. Mannskepnan tekur ákvörðun; við förum í Blóðbankann ef við erum að gefa blóð en það er níðst á dýrunum án þess að hika.

Ég las grein á sínum tíma þegar við vorum að ræða þetta. Höfundur hennar heitir Árni Stefán Árnason og er lögfræðingur, sérhæfir sig í lögum um dýravernd. Hann skrifaði grein í Kjarnann 14. janúar 2020 og með leyfi forseta ætla ég að vitna í grein hans. Þar segir undir fyrirsögninni „Alheimsvirðing íslenskrar hrossaræktar á undir högg að sækja“:

„Íslenska hrossið nýtur mikillar virðingar á heimsvísu. Þegar best lætur á Íslandi er aðbúnaður og framkoma mannsins við hrossið til mikillar fyrirmyndar, langt umfram það, sem lög krefjast og gott siðferði gerir tilkall til. Þá ímynd verðum við að vernda og hrossinu ber að sýna þakklæti og virðingu. — En svo er því miður ekki alls staðar á Íslandi.“

Og áfram segir í fyrirsögn „Blóðmerin er tilraunadýr til að auka kjötframleiðslu“:

„Blóðmerahald er iðnaður, skilgreindur sem tilraunadýrastarfsemi af Matvælastofnun (MAST) og hefur þann eina tilgang, að framleiða hormónið PMSG, hvata til að auka frjósemi í svínaeldi til manneldis.“

Síðar í greininni segir orðrétt undir fyrirsögninni „Blóðmerar þolendur hins harða heims útigangs“:

„Blóðmerar eru útigangshryssur. Úti allt árið við afar misjafnar aðstæður. Við þessar aðstæður er skylda skv. lögum að veita þeim gott skjól, gegn veðrum, fóður og vatn. Það heyrði til undantekninga að samstarfsaðilar mínir sæju kröfuna um skjól uppfyllta en þeir höfðu viðkomu á um 40 stöðum blóðmerastóða hvar haldin voru hundruð mera ásamt folöldum. Það kom og á daginn í nýlegu óveðri að hross gátu ekki veitt sér skjól og drápust hægum kvalafullum dauðdaga, þvert á ákvæði dýraverndarlaga. Margoft hefur verið gagnrýnt af ýmsum aðilum hvernig mörg útigangshross eru auk þess vanrækt að vetri til varðandi vatns- og heygjöf.“

Undir fyrirsögninni „Iðnaðarþrælarnir blóðmerar og folöld þeirra“, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Blóðmerar eru gerðar fylfullar með reglulegu millibili til þess að líkami þeirra geti hafið framleiðslu blóðs, sem inniheldur PMSG, „gull­mola“ líftæknifyrirtækja, sem veitir þeim milljarðahagnað á ári hverju með fjöldaframleiðslu þess. Blóð er tekið úr merum í tuglítratali yfir sumarmánuðina.“

Í frumvarpinu kemur fram að það hefur ekki verið hrakið hér á nokkurn hátt að blóð sé tekið úr merunum 7–8 sinnum yfir sumarið. Íslenski hesturinn er minni en erlend hestakyn og því er blóðmagn íslenskra mera aðeins 35–37 lítrar, eins og áður kom fram. Hér er því verið að taka um 14% af blóðmagni þeirra í viku hverri í tvo mánuði.

Mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja í fyrsta lagi að hægt sé að réttlæta þetta. Í öðru lagi að það sé líka, eins og hefur komið fram í málaskrá — það er eiginlega stórfurðulegt að við skulum vera í dag í þessari stöðu að þurfa að berjast fyrir því að það sé ekki framið svona óhugnanlegt dýraníð hér. Okkur ber eiginlega skylda til að leggja þetta af. Við eigum að vera nógu siðuð og við eigum að vera orðin nógu þróuð til að bera meiri virðingu fyrir dýrunum okkar en þetta. Ég segi fyrir mitt leyti að ég ber virðingu fyrir bændum og ég hef ekkert nema gott að segja af þeim bændum þar sem ég þekki til, en ég trúi því ekki að raunverulegir bændur vilji hafa þennan búskap. Hagnaðurinn hlýtur að liggja í því að taka blóð og búa til efnið sem svínabændur framleiða kjöt með. Ég segi: Eigum við að sammælast um það að frumvarpið sem við erum hér að mæla fyrir nái fram að ganga og að það sé kominn tími til að við sýnum hestum þá virðingu, sérstaklega merunum sem eru með folöld, að við séum ekki að dæla fleiri lítrum af blóði úr þeim 7–8 sinnum á sumri? Getum við verið í fáránlegri stöðu en þetta? Er hægt að leggjast lægra? Ég sé engan tilgang með þessu. Ég spyr: Er ekki löngu kominn tími til að við högum okkur eins og aðrar siðaðar þjóðir og hugsum um velferð dýra og hættum að níðast á þessum dýrum og það strax?