154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

velferð dýra.

12. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir hans innlegg í umræðuna. En ég frábið mér alfarið að hv. þingmaður sé að biðjast afsökunar á orðum mínum hér í þessum hv. ræðustóli landsins. Ég get séð um það sjálf og ég sé ekki eftir einu einasta orði sem ég hef hér látið falla, ekki einu. Það að brjóta dýravelferðarlöggjöfina er ekkert annað í mínum huga en hreint og klárt dýraníð. Það mun ég segja hvar og hvenær sem er.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að við erum eina landið í Evrópu sem stundar þessa iðju? Gefur hv. þingmaður lítið fyrir það sem við höfum fengið frá eftirlitsstofnuninni, ESA? Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort honum finnist eðlilegt að stunda blóðmerahald í ljósi þessarar ásýndar þegar í rauninni er hægt að fá sambærileg lyf án þess að níðast á fylfullum hryssum. Það er ónauðsynlegt. Um leið vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort honum finnist ekki eðlilegt og sjálfsagt að ríkisvaldið komi hér inn í og styðji við þá bændur sem þurfa að auka afkomu sína með því að stunda þessa iðju.

Svo væri kannski ekki úr vegi, fyrst hann hrópar svona mikið í hagsmunagæslu fyrir okkar góðu bændur, að hv. þingmaður átti sig á því að hann er í Sjálfstæðisflokknum, stærsta hagsmunagæsluflokki sjálfsagt í heiminum, sem er í lófa lagið að koma til móts við bændur og styðja við þá og styrkja þá og gera okkur að ærlegri stétt sem getur séð um sig sjálf hvað lýtur að matvælaframleiðslu.