154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

velferð dýra.

12. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni síðara andsvar. Þvílíkir og aðrir eins útúrsnúningar. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður gerir það vísvitandi eða óvart. Í fyrsta lagi: Hann vísar hér í yfirdýralækni sem var staddur hjá atvinnuveganefnd og fullyrti að hér væri ekki um neitt dýraníð að ræða. Ef yfirdýralæknir hefur látið þau orð falla þá ætti hann að byrja á því að pakka saman og segja starfinu lausu. Þá er hann vanhæfur sem dýralæknir. Og í öðru lagi þá hefur það aldrei verið meiningin hér, með því að leggja niður þetta blóðmeradýraníðshald, að skemma fyrir bændum eða að þeir setjist í helgan stein og ríkið þurfi að borga, heldur að aðstoða þá að fara í einhverja aðra búgrein. Ég hélt að það hefði alveg komið skýrt fram í minni ræðu hér og hv. þingmaður er vel meðvitaður um það. Ég segi bara þetta: Hér er mál sem skiptir okkur öll máli og ásýnd lands og þjóðar út á við, burt séð frá því hversu vel og mikið við elskum íslenska bændur.