154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

velferð dýra.

12. mál
[17:38]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við eigum samleið, ég og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson, eins og svo oft áður, gamlir Austurbæingar úr Eyjum. Það er nú annaðhvort að við séum ekki í sama liði. Fyrir mér er blóðmerahald í sjálfu sér orðið hefðbundinn búskapur eftir 40 ára tilverurétt á Íslandi. Ég get ekki meint annað. Við getum auðvitað haft skiptar skoðanir um það, það er bara hið eðlilegasta mál. Ég hef fyrst og fremst verið að gera athugasemdir við umræðuna, hvernig hún er lögð upp og hvernig er farið í bændur í þessu máli. Mér finnst það bara ekki okkur sæmandi að gera það, hvorki á þennan hátt né að gera þeim það eða nokkrum öðrum sem ekki geta komið hingað í púltið og svarað fyrir sig, að saka þá um alvarlegan glæp sem er kallað dýraníð.