154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

36. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ásamt mér á frumvarpinu eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Ég vil þakka þeim þingmönnum utan þingflokks Flokks fólksins sem komu og sýndu þessu máli þá virðingu og þann sóma að vera meðflutningsmenn með okkur á því. Það skal tekið fram að öllum þingmönnum var boðið að vera með okkur á málinu um löggildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í 1. mgr. 1. gr. segir svo:

„Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur lagagildi á Íslandi. Samningurinn um réttindi fatlaðs fólks er birtur sem fylgiskjal með lögum þessum.“

2. gr.:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var lagt fram á 152. og 153. löggjafarþingi (61. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt. Fyrirsögn frumvarpsins hefur verið breytt til að gæta lagasamræmis.

Fatlað fólk hefur ávallt þurft að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Það er ekki aðeins barátta gegn fordómum heldur einnig barátta gegn ofbeldi og barátta fyrir jafnrétti og sanngjörnum lífsgæðum. Mikið hefur áunnist í þeirri baráttu á undanförnum áratugum, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Baráttunni er þó ekki lokið. Enn er langt í land og nú er kominn tími til að stíga næsta skref í átt að réttlæti og jafnrétti.

Einn mikilvægasti áfanginn í þeirri réttindabaráttu er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn hefur það að markmiði að tryggja réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra.“ — Þá erum við líka að segja að það er verið að reyna að tryggja að fatlað fólk geti náð fram eins og kostur er þeim lífsgæðum sem fötlun þeirra segir til um. Við eigum í rauninni að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera líf fatlaðra eins gott og kostur er. Til þess verðum við að koma til móts við þau í alla staði. — „Í samningnum er fjallað um þau réttindi sem aðildarríkjum ber að tryggja fötluðu fólki og með hvaða hætti þau skuli tryggð.

Ísland undirritaði samninginn strax á upphafsdegi hans, 30. mars 2007.“ — Hugsið ykkur, við undirrituðum þetta 30. mars 2007. Nú í dag er árið 2023 og við höfum enn ekki, 16 árum síðar, löggilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það sjá það allir sem sjá vilja hvaða virðingu við berum fyrir okkar minnstu bræðrum og systrum. — „Undirritun alþjóðasamninga er almennt aðeins viljayfirlýsing en fullgilding felur í sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að uppfylla þær skyldur og tryggja þau réttindi sem alþjóðasamningar kveða á um. Árið 2016 samþykkti Alþingi loks að heimila ríkisstjórninni að fullgilda samninginn. Hann var í kjölfarið fullgiltur 6. desember 2016 og birtur í C-deild Stjórnartíðinda 29. júní 2017.

Almennt er viðurkennt að íslenskur réttur byggist á tvíeðliskenningunni. Í henni felst að alþjóðasamningar sem Ísland er aðili að hafa ekki bein réttaráhrif.“ — Þrátt fyrir að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé sannarlega til og flest ríki, siðmenntuð samfélög og réttarríki, hafi löngu löggilt hann, þá gildir hann því miður ekki á Íslandi nema við löggildum hann líka. Það er það sem tvíeðliskenningin felur í sér. Til þess að alþjóðasamningar hafi þessi beinu réttaráhrif þurfum við sem sagt að lögfesta hann. — „Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði mikil réttarbót og tryggði með lögum þau réttindi sem samningurinn kveður á um. Þess vegna hefur ítrekað verið kallað eftir því af hálfu Öryrkjabandalags Íslands, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og almennings að Alþingi lögfesti samninginn.

Árið 2019 samþykkti Alþingi tillögu um að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samningsins,“ — sem sagt fyrir fjórum árum samþykkti Alþingi tillögu um að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samningsins — „og leggja fram frumvarp þar um eigi síðar en 13. desember 2020.“ — Sem sagt eigi síðar en fyrir réttum tæplega þremur árum síðan. Í kjölfarið var hins vegar ákveðið að þýða samninginn upp á nýtt. Ný þýðing var lögð fram í mars 2021 og hún var samþykkt á Alþingi í maí sama ár fyrir ríflega tveimur árum síðan. Nú stendur aðeins eftir að ganga formlega frá lögfestingunni. Ekki er seinna vænna enda sá frestur sem mælt var fyrir um í ályktun Alþingis löngu liðinn. — „Í frumvarpi þessu er því lagt til að veita samningnum lagagildi á grundvelli þeirrar þýðingar sem samþykkt var á Alþingi hinn 11. maí 2021.

Nokkur fjöldi umsagna barst um frumvarp þetta á 152. og 153. löggjafarþingi. Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Íslandsdeild Amnesty International, NPA-miðstöðin, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og réttindagæslumaður fatlaðra í Reykjavík og á Seltjarnarnesi lýstu yfir stuðningi við frumvarpið. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kom fram að mikilvægt væri að kostnaðarmeta áhrif lögfestingar samningsins vegna þess að hún kynni að hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög.“ — Það skyldi þó aldrei vera að þarna liggi hundurinn grafinn. Það nefnilega kostar svo mikið að hjálpa fötluðu fólki. Excel-skjalið er þeim afskaplega óhagkvæmt. Þau eru nefnilega bara kostnaður í excel-skjalinu. Þau eru ekki að skila nógu í kassann. Þess vegna hafa þau verið látin bíða árum saman eftir þessum grundvallarmannréttindum sínum, að fá löggildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ég held áfram að vísa hér í greinargerðina þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemd við að frumvarpið hefði farið til velferðarnefndar og töldu að það ætti frekar heima hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Eldri þingmál sem vörðuðu samninginn hafi verið til umfjöllunar þar og þá sé lögfesting samningsins fyrst og fremst mannréttindamál frekar en velferðarmál. Vert er að minnast sérstaklega á umsögn Ágústs Fannars Leifssonar. Hann nefnir mál sitt sem dæmi, sem hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum og hefði mögulega farið á annan veg ef búið hefði verið að lögfesta samninginn. Um mikilvægi þess að lögfesta samninginn segir Ágúst: „[Samningurinn] segir að ég sé jafn mikils virði og aðrir þótt ég sé fatlaður. Hann segir að ófatlað fólk hafi búið til samfélag fyrir sig og gleymt fólki eins og mér þegar það bjó til lög og reglur og tók ákvarðanir fyrir samfélagið. Og hann segir að samfélagið eigi að aðlaga sig að mér og öðru fötluðu fólki.“

Alþingi samþykkti einróma þingsályktunartillögur um fullgildingu samningsins, um lögfestingu samningsins og um nýja þýðingu á samningnum. Nú er kominn tími til að lögfesta samninginn og tryggja þá réttarvernd sem fatlað fólk á skilið.“

Virðulegi forseti. Ég hef ekki betur heyrt en að ríkisstjórnin hafi tekið það fram, jafnvel í stjórnarsáttmála, að hún stefndi að því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hún stefnir nú að ýmsu, það verður að segjast eins og er, það er ansi margt sem er stefnt að hér. En það er ekki nóg að stefna að hlutunum, það þarf að framkvæma hlutina, það þarf að koma hlutunum í verk og það að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er ekki bara skylduverkefni fyrir okkur hér heldur mannréttindaverkefni, mannúðarverkefni og viðurkenning á því að okkar minnstu bræður og systur eigi það skilið að fá samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi sín lögfestan til þess að geta lifað hér í samfélaginu okkar eins og kostur er miðað við fötlun sína.