154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

36. mál
[18:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi ásamt þingflokki Flokks fólksins og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, og Gísla Rafni Ólafssyni, þingmanni Pírata, um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi lagagildi á Íslandi og hann yrði birtur sem fylgiskjal með lögunum.

Fatlað fólk hefur ávallt þurft að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Það er ekki aðeins barátta gegn fordómum heldur einnig barátta gegn ofbeldi og barátta fyrir jafnrétti og sanngjörnum lífsgæðum. Þó að mikið hafi áunnist í þeirri baráttu á undanförnum áratugum þá er enn langt í land og ég verð að segja eins og er að ég myndi gjarnan vilja sjá meiri umfjöllun í fjölmiðlum um réttindi og mannréttindi fatlaðs fólks og þá til jafns við aðra hópa í samfélaginu. Það er mikilvægt að við sem samfélag tökum utan um þennan hóp og göngum nú kröftuglega til verks og sjáum til þess að mannréttindi fatlaðs fólks fái notið sín, að það geti tekið virkan þátt í samfélaginu.

Með það að leiðarljósi er mjög mikilvægt að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði löggiltur. Í íslenskum rétti er byggt á svokallaðri tvíeðliskenningu en í henni felst að alþjóðasamningur sem Ísland er aðili að hefur ekki bein réttaráhrif á Íslandi, þ.e. einstaklingar og lögaðilar á Íslandi geta ekki vísað í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk lög heldur sem alþjóðasamning sem er notaður til túlkunar á íslenskum lögum. Um leið og samningurinn væri kominn inn í íslensk lög þá gætu einstaklingar notað ákvæði samningsins til að ná fram rétti sínum. Til þess að hann hafi bein réttaráhrif þarf að lögfesta hann. Lögfesting samningsins yrði því mikil réttarbót og tryggði með lögum þau réttindi sem samningurinn kveður á um. Það eina sem stendur eftir er að ganga formlega frá lögfestingunni.

Mig langar aðeins að fjalla um ákveðin ákvæði samningsins. Eins og segir í formálsorðum eru ríki samningsins að árétta það að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi séu algild og óumdeilanleg, innbyrðis háð og samtvinnuð, og áréttuð nauðsyn þess að tryggja að fatlað fólk njóti þeirra að fullu án mismununar. Í samningnum segir einnig að ríki viðurkenni að hugtakið fötlun sé í þróun og að fötlun sé afsprengi samspils milli fólks með skerðingar annars vegar og umhverfis og viðhorfa hins vegar sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.

Með því að lögfesta væri líka sett í lög enn frekari viðurkenning á margbreytileika fatlaðs fólks, eins og segir í formálsorðunum. Við værum einnig að viðurkenna í lögum nauðsyn þess að efla og vernda mannréttindi alls fatlaðs fólks, þar með talið þess sem þarf mikinn stuðning. Við værum einnig að viðurkenna hið mikilvæga framlag sem fatlað fólk innir af hendi eða gæti innt af hendi til almennrar velsældar og margbreytni innan samfélagsins og að efling mannréttinda og grundvallarfrelsis auk fullrar þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu muni leiða til aukinnar tilfinningar þess fyrir því að tilheyra samfélaginu og til verulegra framfara í mannlegri, félagslegri og efnahagslegri þróun samfélagsins og til útrýmingar fátæktar.

Við værum að festa í lög viðurkenningu á mikilvægi sjálfræðis og sjálfstæðis fatlaðs fólks, þar með talið frelsis til að taka eigin ákvarðanir. Við værum einnig að festa í lög áhyggjur af erfiðum aðstæðum fatlaðs fólks sem sætir fjölþættri eða aukinni mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana og annarra skoðana.

Við værum einnig að viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, á að verða fyrir ofbeldi, skaða eða misþyrmingum, vanrækslu eða hirðuleysi, illri meðferð eða misnotkun í gróðaskyni. Við værum einnig að viðurkenna og setja í lög viðurkenningu þess efnis að fötluð börn eigi að njóta til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn og minnast skyldna til þess sem aðildarríki samningsins um réttindi barnsins hafa undirgengist. Við værum jafnframt að leggja áherslu á nauðsyn þess að innleiða kynjasjónarmið í allar aðgerðir sem ætlað er að ná fullum mannréttindum og grundvallarfrelsi fatlaðs fólks.

Með því að lögfesta samninginn værum við einnig að draga fram þá staðreynd að meiri hluti fatlaðs fólks býr við fátækt og viðurkenna í því sambandi að knýjandi þörf er á að vinna gegn neikvæðum áhrifum fátæktar á fatlað fólk.

Hér er um gríðarlega mikilvæg markmið að ræða sem við sem samfélag ættum tvímælalaust að setja sem fyrst í lög og vinna að sameiginlega. Til þess þarf að hafa ákveðnar aðgerðaáætlanir sem mikilvægt er að tryggi þessi réttindi, efli og verji og tryggi að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis auk þess að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn fatlaðs fólks.

Hér virðist vera að ég sé að lesa bara mjög sjálfsagða hluti en þetta er ekki komið í lög á Íslandi. Mig langar að minna líka á að í skilgreiningum samnings fatlaðs fólks eru mjög áhugaverðar skilgreiningar, sem eru t.d., með leyfi forseta:

„„Mismunun á grundvelli fötlunar“ merkir hvers konar greinarmun, útilokun eða takmörkun á grundvelli fötlunar sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að torvelda eða koma í veg fyrir að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi séu viðurkennd, þeirra sé notið eða þau séu nýtt, á jafnréttisgrundvelli, á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og menningarmála, sem borgari eða á öðrum sviðum. Hugtakið tekur til mismununar í hvaða mynd sem er, þ.m.t. þegar fötluðu fólki er neitað um viðeigandi aðlögun.“

Hér er komið hugtak sem er gríðarlega mikilvægt fyrir fatlað fólk, þ.e. hvenær á mismunun sér stað, hvenær er verið að mismuna fólki á grundvelli fötlunar? Þessi skilgreining væri þá með lögfestingu komin inn í lög og fatlað fólk gæti leitað réttar síns þegar verið væri að mismuna því á grundvelli þeirrar skilgreiningar sem ég las upp. Einnig er hugtakið viðeigandi aðlögun skilgreint sem „nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi“.

Hér er líka verið að skilgreina það hvernig við eigum að ná viðeigandi aðlögun. Það er einnig skilgreining á algildri hönnun sem er hönnun á framleiðsluvöru og öðru slíku sem fólk getur nýtt sér að því marki án þess að það þurfi að koma til umbreytinga og algild hönnun á ekki að útiloka hjálpartæki fyrir tiltekna hópa fatlaðs fólks. Hér eru mikilvæg hugtök sem fatlað fólk gæti notað í réttindabaráttunni fyrir dómstólum og stofnunum ríkisins.

Önnur atriði sem vert er að skoða í samningnum sem er mjög mikilvægt að verði lögfest, það er t.d. ákvæði um jafnrétti og bann við mismunun. Það er ákvæði um fatlaðar konur, fötluð börn, vitundarvakningu, aðgengi, réttinn til lífs, aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð, jafna viðurkenningu fyrir lögum, aðgang að réttinum, og frelsi og öryggi einstaklingsins, svona mætti áfram telja, einnig um vernd friðhelgi einstaklingsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Allt fatlað fólk á rétt á virðingu fyrir líkamlegri og andlegri friðhelgi til jafns við aðra.“

Einnig er ákvæði um ferðafrelsi og ríkisfang, frelsi frá pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Það er rétt sem kom fram hjá framsögumanni að það liggur frumvarp fyrir Alþingi sem er búið að mæla fyrir, um Mannréttindastofnun Íslands, sem er nauðsynlegur hluti þess að fullgildingin nái fram að ganga og að við getum sinnt þessum málaflokki á fullnægjandi hátt og að fatlað fólk fái þau réttindi sem eru talin upp í samningnum. Hér er um mjög mikilvægt frumvarp að ræða sem verður að horfa á með hliðsjón af þessu frumvarpi hér um löggildingu samningsins, því það er ekki nóg að löggilda hann, efnisákvæðin þurfa að vera virk og það þarf að fara eftir þeim. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mannréttindamál að ræða sem hefur tafist allt of lengi. Ég vænti þess að það fái góða meðferð í nefnd og að við getum gengið frá lögfestingu á þessum mjög mikilvæga samningi um réttindi fatlaðs fólks nú á þessu þingi. Þetta er eitt af forgangsmálum Flokks fólksins og annað forgangsmál er barátta gegn fátækt. Eins og kom fram í máli mínu hér áðan er líka verið að taka á því og minnast þess að fatlað fólk býr við þá staðreynd að meiri hluti þess býr við fátækt. Það er mjög mikilvægt að viðurkenna í því sambandi knýjandi þörf á að vinna gegn neikvæðum áhrifum fátæktar á fatlað fólk.

Ég á ekki von á mikilli andstöðu við þetta frumvarp og líka að frumvarpið um Mannréttindastofnun Íslands nái fram að ganga svo að við getum verið þjóð meðal þjóða hvað þetta varðar og í þessum mikilvæga málaflokki. Við erum ekki að tala um lítinn hóp fólks heldur eru tugir þúsunda sem búa við fötlun á Íslandi í einni eða annarri mynd og þetta frumvarp og þessi samningur tekur — eins og kom fram áðan er fötlun margvísleg og samningurinn tekur til þess. Það kom fram áðan hjá mér að það stendur í samningnum að með löggjöf væri fest í lög viðurkenning á margbreytileika fatlaðs fólks. Ég vænti þess að þetta fái góða meðferð í nefnd og verði að lögum, vonandi fyrir áramót eða þá fyrir vorið.