154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

grunnskólar.

47. mál
[19:04]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. framsögumanni Birgi Þórarinssyni fyrir sína framsögu. Þetta er að mörgu leyti vel skrifað frumvarp, fer vel yfir sögu kristnifræði hér á landi en það er talað um að það þurfi að taka kristinfræði sérstaklega út fyrir trúarbragðafræðina, leggja sérstaka áherslu á hana.

Þegar maður opnar aðalnámskrá þá er það gert í nokkrum viðmiðum. Þar er sagt að börn í 4. bekk eigi að kunna deili á nokkrum frásögnum, helstu hátíðum og siðum kristni og annarra trúarbragða, einkum í nærsamfélaginu, og ef ég held áfram, með leyfi forseta, „komið auga á dæmi um áhrif Biblíunnar á samfélagið“. Þetta er í 4. bekk. Í 7. bekk eiga börn að geta gert grein fyrir völdum frásögnum, hefðum, hátíðum, siðum og táknum í kristni og nokkrum helstu trúarbrögðum heims. Svo í 10. bekk eiga börn að geta sýnt fram á læsi á frásagnir, hefðir, kenningar, hátíðir, siði og tákn kristni og annarra helstu trúarbragða heims sem og geta greint áhrif Biblíunnar og helgirita annarra helstu trúarbragða á menningu og samfélög. Þetta er því gert í viðmiðum, þetta eru bara nokkur atriði sem ég tók fram í fljótu bragði. Ég sé því ekki hvernig það á að skila þeim áhrifum sem hv. þingmaður vill ná fram með þessu frumvarpi með því að taka þetta sérstaklega fram í lögunum af því að það er nú þegar gert í aðalnámskrá.