154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

áherslur og störf ríkisstjórnarinnar.

[10:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta ágæta blað, Morgunblaðið, sem er svona blað ríkisstjórnarinnar, kallar engu að síður oddvita ríkisstjórnarinnar markþjálfa eftir atburði síðustu daga og vikna og þetta hópefli. Þau draga m.a. fram að það er síður en svo sátt um fiskeldið eða sjávarútveginn, því að þau segja, með leyfi forseta:

„Enn eru þó óútkljáð erfið mál á borð við útlendingamálin, orkumál og matvælaráðherra, sem ekki leysast af sjálfu sér, þola ekki bið …“ — að greinilega að losna við.

Glíman við verðbólguna byrjaði fyrr hér en nokkurs staðar annars staðar og við erum núna með hærri verðbólgu en nokkurs staðar annars staðar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Í lok síðasta árs var verðbólga í Færeyjum 10,1%, núna er hún ríflega 3%. Í Danmörku er hún innan við 1% en hér er hún 8%. Okkur er að mistakast í glímunni við verðbólguna. Skilaboð ríkisstjórnarinnar varðandi aðhaldsleysi í ríkisfjármálunum eru að við verðum lengur með verðbólgu og við verðum lengur með háa vexti. Það eru nöturleg skilaboð (Forseti hringir.) til íslenskra heimila. Þessi lausatök í ríkisfjármálunum eru ekki bjóðandi. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að taka þetta hlutverk alvarlega, ekki bara (Forseti hringir.) fara í þetta hópefli, sem er fínt, heldur að tala skýrt til þjóðarinnar um hvað þarf að gera núna, ekki um það sem gert var.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er aðeins ein mínúta í síðari umferð.)