154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

áherslur og störf ríkisstjórnarinnar.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta er nú heila málið sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur inn á, það skiptir nefnilega máli að hafa skýra sýn í ríkisfjármálum og það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin hefur. Við höfum kynnt okkar sýn og við höfum ekki hvikað frá þeirri sýn. Hún snýst um það að við erum að beita aðhaldi í ríkisrekstri og hún snýst líka um það að við erum að afla aukinna tekna. Og frá því að þessar tillögur voru kynntar höfum við séð að þær eru þegar farnar að bera árangur. Við sjáum það á þeim undirliggjandi þáttum verðbólgunnar sem eru á leiðinni niður. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að við erum með hærri verðbólgu en þau samanburðarlönd sem hún nefndi. En ef við horfum bara á evrusvæðið og Evrópusambandið, sem ég veit að er hv. þingmanni hugleikið, þá er nú ansi mikil breidd á litrófinu þar þegar kemur að verðbólgunni. Þannig að það er algerlega ljóst að innganga í Evrópusambandið og upptaka evru myndi ekki leysa öll okkar vandamál eins og stundum er gefið til kynna. (Gripið fram í.)

En annars vil ég að lokum segja það að mér finnst áhugaverðast að hv. þingmaður vitnaði í Morgunblaðið. Ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki lesið leiðara Morgunblaðsins í dag en heyri það að hv. þingmaður kynnir sér efni þess blaðs á hverjum degi.