154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[11:32]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skynja það nú að við hv. þingmaður erum algjörlega sammála um að það er mikilvægt að heiðra listamenn og listafólk. En hvort að heiðurslaun séu akkúrat rétta leiðin til þess, þar greinir okkur á, eða þessi takmörkun á því að heiðra að hámarki 25. Sá sem fer einu sinni inn á listann hefur hingað til ekki farið út af honum aftur nema þegar viðkomandi andast. En við þekkjum samt hér í þessum sal að það er misjafnt hvernig aðdragandinn er að því hvernig valið er á listann. Þar hafa þessi sjónarmið komið fram og það hefur verið kallað, held ég, í þessa fagnefnd alveg síðan 2016 eða 2017. Þá er ekkert síður pólitík innan listaheimsins en hér inni á Alþingi, ef ekki meiri, varðandi hvaða listgreinar eiga fulltrúa þar inni. Og svo koma að sjálfsögðu kynin og aðrar breytur þar inn í. Við höfum oftar en ekki fengið mikið af tölvupóstum og skeytum, bæði frá listamönnunum sjálfum og frá stjórnmálaflokkum eða frá fólki innan þeirra sem tala fyrir einstaka listamönnum og við vitum alveg að það er mjög mikil pólitík á bak við þetta kerfi þó að við séum með þessa nefnd og hún hafi verið kölluð til. Það er líka pólitík innan listaheimsins varðandi hvernig valið er í nefndina, hvernig listgreinarnar er metnar, virðing á milli listgreina. Þetta þekkjum við allt hér sem höfum fylgst með þessu ferli um langan tíma.