154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu sem er mikilvæg og hefur tengsl við margt það sem við gerum hér á Alþingi. Fyrir skemmstu ræddum við hér skýrslu forsætisráðherra til Alþingis um fátækt á Íslandi og kostnað samfélagsins vegna hennar. Þar komu fram þau jákvæðu tíðindi að hlutfall fólks 67 ára og eldra sem var undir lágtekjumörkum hvert ár frá 2000–2020 hefur farið úr tæpum 20% niður í um 6%. Öldruðu fólki í tekjulægsta hópnum hefur því fækkað hlutfallslega á síðustu 20 árum þannig að við erum á réttri leið. Það er líka bent á að til að bæta hag eldra fólks er betra að fara í gegnum almannatryggingakerfið en millifærslukerfin sem nýtast aftur betur fjölskyldufólki, barnafólki.

Nýlegar breytingar á almannatryggingakerfinu eiga væntanlega þátt í betri stöðu eldra fólks ásamt auknum tekjum úr lífeyriskerfinu. Meðal breytinga sem gerðar hafa verið á undanförnum árum er að 2020 voru sett lög um félagslegan viðbótarstuðning til að tryggja framfærslu þess eldra fólks sem hafði takmörkuð réttindi hjá almannatryggingum, oft vegna langrar búsetu erlendis. Þessi stuðningur mætir þeim sem hafa búið við lökustu kjörin. Þá var stuðningur í gegnum húsaleigubætur hækkaður um 25% um síðustu áramót. Kominn er rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð á íbúðum á viðráðanlegu verði og búið er að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna. Þrátt fyrir þetta þurfum við stöðugt að vera á vaktinni, greina og meta til að tryggja áframhaldandi markvissar aðgerðir til að koma öllum upp fyrir fátæktarmörkin, svo sem með aðgerðum í gegnum almannatryggingakerfið og í húsnæðismálum eins og að framan er nefnt.

Í seinni ræðu ætla ég að koma að samvinnuverkefninu Gott að eldast.