154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu hér í dag sem er mikilvæg því að flest eldumst við og verðum að meðaltali eldri en kynslóðin á undan okkur, m.a. vegna batnandi aðstæðna, minna brauðstrits og framfara í heilbrigðis- og velferðarmálum.

Fyrir skömmu ræddum við hér á Alþingi mikilvæga skýrslu forsætisráðherra um fátækt. Þar kom m.a. fram að hagur eldra fólks hefur heldur vænkast síðustu 20 ár, sem sannarlega er ánægjulegt, en það kom líka fram í sömu skýrslu að á meðal eldra fólks er hópur sem hefur það einna verst þegar litið er til lífskjara. Við sem samfélag getum ekki litið fram hjá þeim hópi og eins og ráðherra nefndi hér áðan er lögð áhersla á að bæta þeirra stöðu. Liður í því að stuðla að jöfnuði á öllum æviskeiðum er að hafa næg úrræði og þjónustu fyrir fólkið okkar á hverjum tíma. Þjónusta við eldra fólk þarf að þróast í takt við fjölgun og bættar lífslíkur. Við þekkjum flest að þjónusta við eldra fólk hefur gjarnan flækst á milli ríkis og sveitarfélaga og þess vegna er afar mikilvæg sú samvinna sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa með sér um málefni eldra fólks. Það er mikilvægt að brjóta niður múra eins og gert er ráð fyrir í stefnunni Gott að eldast. Það þarf að samþætta þjónustuna og hafa hana sveigjanlega með áherslu á nýsköpun sem mun nýtast til langrar framtíðar. Betri lýðheilsa og forvarnir spila stórt hlutverk í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar og partur af því er að fólk viðhaldi bæði færni sinni og virkni og geti þar af leiðandi m.a. búið lengur heima, kjósi það svo. Og það er einmitt grunnhugsunin að baki þessu þróunarverkefni Gott að eldast. Við þurfum á öllum tímum að gefa fólki tækifæri til að lifa með reisn og hafa í huga að eldra fólk er ekki byrði á samfélaginu heldur hefur það ótvírætt virði. Við eigum öll að geta hlakkað til efri áranna og þess að fá notið hæfileika okkar æviskeiðið á enda.