154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að brydda upp á þessari mikilvægu umræðu. Umræðan er þörf og hún er brýn, enda með öllu ótækt að einstaklingar sem hafa byggt upp þetta land búi við þær aðstæður sem lýst var í upphafsræðu hv. þingmanns. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur sem minntist á það að þjónusta við eldra fólk þurfi að þróast í takt við fólksfjölgun og í takti við bættar lífslíkur. Hér hafa nokkrir þingmenn meiri hlutans talaði um mikilvægi samþættingar þjónustu og að ólík ráðuneyti tali saman og verð ég að lýsa yfir áhyggjum mínum hvað það varðar. Það hefur kannski verið helsta vandamál þessarar ríkisstjórnar hversu mikil gjá virðist vera á milli ráðuneyta þrátt fyrir fögur loforð, fögur fyrirheit við endurnýjun heita þessarar ríkisstjórnar. Ég vona bara að í þessum málaflokki, og það skiptir kannski ekki síst máli í málaflokki sem þessum, að þetta samstarf eigi sér raunverulega stað. Ég vona að hæstv. ríkisstjórn verði þeirrar gæfu aðnjótandi að láta það ekki bitna frekar á almennum borgurum, í þessu tilfelli þeim einstaklingum sem hafa byggt upp þetta land með þátttöku sinni í samfélaginu og með ævistarfi sínu og samfélagsþátttöku, að ósættið innan ríkisstjórnarinnar bitni ekki frekar á þeim. Ég vil líka taka undir með hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur sem ljáði máls á rétti fólks til að halda til áframhaldandi þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði sjái fólk möguleika á því og telji það sér fært og hafi frelsi og sveigjanleika til þess án þess að það komi niður á grundvallarlífsskilyrðum þeirra. Þá er ég runnin út á tíma en ég vil þakka málshefjanda aftur fyrir þessa mikilvægu umræðu og hvet ríkisstjórnina til góðra verka.