154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:35]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Árið 2021 kom út skýrsla starfshóps sem Ingibjörg Isaksen, núverandi formaður þingflokks Framsóknar, leiddi. Þessi skýrsla var um lífskjör og aðbúnað eldra fólks og er skemmst frá því að segja að 14 af 18 tillögum sem þar voru settar fram eru komnar vel á veg í vinnslu. Hluti af þeim er einmitt í þróun í gegnum verkefnið Gott að eldast sem hér hefur verið nefnt en það verkefni er lykill að framþróun í þjónustu við aldraða enda eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar, leitt af félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti í samvinnu við fjölmarga í samfélaginu. Gott að eldast er verkefni þjóðarinnar og jafnframt heiti á aðgerðaáætlun fyrir árin 2023–2027 um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor. Framkvæmdin felst í þróunarverkefnum til að samþætta betur félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og stuðla þannig að auknu heilbrigði og lífsgæðum. Sem dæmi um þróunarverkefni sem því tengjast má nefna verkefni tengd lið A.1., um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu í heimahúsum. Í sumar var auglýst eftir þátttakendum þar sem bæði sveitarfélögunum og heilbrigðisstofnunum bauðst að taka þátt. Tæplega 20 umsóknir bárust um þátttöku en skilyrði fyrir henni voru að stofnun sem rekur heimahjúkrun og sveitarfélög sem reka stuðningsþjónustu væru sammála um að einn aðili ræki samþætta þjónustu, samþætta heimaþjónustu á tilteknu svæði. Nú hafa sex svæði verið valin til þátttöku í þessu verkefni, þar á meðal eru Dalvíkurbyggð, Fjarðabyggð, Múlaþing og Mosfellsbær. Við þurfum að tryggja að samfélagið ráði við að þjónusta fjölbreyttan og stækkandi hóp eldra fólks á hverjum tíma og verkefnið Gott að eldast er upphafið að nýju verklagi í þeirri þjónustu.