154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

57. mál
[14:15]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Frelsið er yndislegt. Ég trúi því statt og stöðugt að einstaklingar eigi að hafa frelsi til að velja svo lengi sem frelsið skaðar ekki aðra. Mér þykir líka eðlilegt að frelsið nái út fyrir dauðann. Þess vegna legg ég fram þetta frumvarp um það að einstaklingurinn megi sjálfur ákvarða hvort hann óskar þess að vera brenndur að sér gengnum og hvort dreifa megi öskunni þar sem einstaklingurinn sjálfur kýs að láta dreifa henni.

Í dag búum við nefnilega við töluvert íþyngjandi regluverk hins opinbera um það hvernig skuli meðhöndla jarðneskar leifar okkar. Ég ætla að biðja ykkur um að sjá fyrir ykkur ofboðslega fallegt atriði í bíómynd, og þær eru reyndar allmargar bíómyndirnar og þættirnir sem hafa tekið á því hversu sárt það er að missa ástvin, en jafnframt hversu fallegt það er þegar hægt er að uppfylla hinstu ósk ástvinarins með því að dreifa öskunni á fallegum stað að ósk viðkomandi. Ég sé fyrir mér Carrie Bradshaw, persónuna sem gerði garðinn frægan í Beðmálum í borginni, eins og þættirnir hétu á íslensku, en á upprunalega málinu hétu þeir Sex and the City. Það komu framhaldsþættir af þeirri þáttaröð sem heita á engilsaxnesku Just like that og mér er ekki kunnugt um, forseti, að það nafn hafi verið þýtt enn sem komið er. Eftir að endalausri ástarsögu Carrie og Big lýkur við andlát Mr. Big þá fer Carrie í borg sem hafði haft afdrifarík áhrif á ástarsögu þeirra, borg ástarinnar: París. Hún stendur þar í sínum fallega kjól og dreifir ösku hans yfir Signu. Við sjáum óteljandi svona atriði í bíómyndum og þáttum. Við höfum meira að segja séð myndir sem hafa birst í íslenskum fjölmiðlum þar sem ösku látins aðila hefur verið dreift við Gullfoss; en það er bannað. Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að það megi helst ekki dreifa ösku. Helst á að jarðsetja viðkomandi. Jú, það má reyndar brenna en þá skal helst grafa öskuna í þar til gerðum kirkjugörðum. Jú, þú getur reyndar sótt um undanþágu á þessu og fengið leyfi til að dreifa öskunni en þá er það bara uppi á öræfum eða yfir sjó, bara á einum stað og alls, alls ekki má merkja þann stað.

Ég velti fyrir mér af hverju stjórnvöld þurfa að vera ráðandi í þessu, sem má segja að sé kannski okkar síðasta vegferð hér á jörð. Af hverju eigum við ekki bara að fá að njóta frelsisins og hafa þetta frjálst? Þess vegna mæli ég fyrir þessu frumvarpi um breytingar á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu þar sem lagt er til að frelsið verði aukið til muna í þessum málaflokki. Þannig verði hægt að dreifa ösku víðar og á fleiri en einum stað. Þannig væri hægt að dreifa ösku og jarðsetja ösku. Þannig fengi vilji hins látna einstaklings að ráða.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég mæli fyrir þessu frumvarpi en ég vona svo sannarlega að nú sé kominn tími til að það fari í gegn. Lagabálkurinn um kirkjugarða og líkbrennslu er frá árinu 1993. Það hafa sannarlega verið uppfærslur á þeim lögum en þó hefur helst verið um tilfærslu verkefna að ræða, verið að einfalda kerfið aðeins og fela einum sýslumanni að taka á undanþágubeiðnum. Auðvitað erum við núna, árið 2023, sem betur fer komin með stafrænar lausnir þannig að hægt er að sækja um þessar undanþágur með rafrænum skilríkjum. En þeim ferðamönnum sem hingað koma er kannski ekkert endilega kunnugt um þær reglur og lög sem gilda í landinu þannig að það má telja víst að það séu fleiri sem hafa fengið vilja sinn uppfylltan og verið dreift yfir fallega landið okkar án þess þó að ættingjarnir eða einstaklingurinn sjálfur sem óskaði þess hafi haft einhverja hugmynd um að þingmönnum á Íslandi hefði á einhverjum tímapunkti dottið í hug að setja um þetta ströng lög og þetta væri þar af leiðandi andstætt lögum.

Ég vona svo sannarlega að frumvarpið fái jákvæða umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd. Síðan ég hef verið að vasast í þessum málum og lagt þetta frumvarp fram þá hefur fjöldi fólks haft samband við mig, deilt með mér skoðunum sínum og sýn á þennan málaflokk og oft mjög persónulegum sögum um hvernig einstaklingarnir stóðu svolítið frammi fyrir stjórnvaldinu með það hvernig væri hægt að virða hinstu ósk hins látna. Þetta kann líka að hafa með það að gera að alls ekki allir eru trúaðir, ekki kristinnar trúar eða aðhyllast mismunandi trú. Það er bara allt í lagi og þar höfum við fullt frelsi. Þess vegna held ég líka að full ástæða sé til þess að virða frelsi einstaklingsins og geta virt hans hinstu ósk.

Því legg ég þetta frumvarp fram aftur og óska eftir því að það fari til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég vona svo sannarlega að ég fái tækifæri til að taka þátt í umræðu um þetta mál í 2. umræðu.