154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

þjónusta vegna vímuefnavanda.

59. mál
[14:27]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir framsöguna og fyrir frumkvæði og forystu í því að flytja þessa tillögu ásamt fleiri þingmönnum. Ég held að þetta sé mikilvægt mál. En ég velti fyrir mér, eins og þingmaðurinn raunar kom inn á, hvort við þurfum ekki að taka heildstætt utan um þessi mál sem tengjast vímuefnanotkun, tóbaks- og áfengisnotkun og notkun annarra vímuefna, annarra efna sem fólk ánetjast. Mig langar að spyrja hv. þingmann annars vegar um hennar skoðun á því hvort við séum að vinna nógu markvisst í forvarnamálum og hins vegar út í stefnu Sjálfstæðisflokksins í forvarnamálum.