154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

þjónusta vegna vímuefnavanda.

59. mál
[14:30]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir svarið og get verið mjög sammála henni að mörgu leyti. Ég held kannski að við höfum öll, bæði hér á þingi og stjórnmálahreyfingarnar, aðeins sofnað á verðinum í forvarnamálum og þess vegna er ég að spyrja sérstaklega út í stefnu flokksins. Ég sjálf tel að minn flokkur þurfi að skerpa sína sýn og ég held að við þurfum öll að skerpa okkar sýn þó að hún hafi kannski verið misskörp fram að þessu. Ég sjálf hef samkvæmt beiðni í alþjóðastarfi flutt fyrirlestur um íslenska forvarnamódelið sem ég þekki vel, bæði sem foreldri á þeim tíma sem var verið að innleiða það, sem kennari og skólastjóri. Það er auðvitað bara mjög gott verkfæri. Við þurfum kannski að uppfæra eitthvað, sem ég er samt ekki viss um því að í rauninni eru þetta þrjú atriði; þetta snýst um samveru foreldra, þetta snýst um virkni og það að vera sammála um það að því eldri sem ungmenni eru þegar þau prófa fyrst einhver efni sem hægt er að vera háður því betra eða því minni hætta skapast. Þetta eru þrjú mjög mikilvæg atriði sem ég held að við getum öll verið sammála um hvar í samfélaginu sem við erum. Svo eru leiðirnar fræðsla, það er takmarkað aðgengi og það er minni sýnileiki sem hefur skilað okkur árangri, sem þarf að fylgja þessu forvarnamódeli. Þannig að ég vil aðeins spyrja hv. þingmann út í þetta með sýnileikann og aðgengið og sýn hennar á það hvernig það styður við svo virka vinnu með ungmennum.