154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

raforkulög.

348. mál
[15:31]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum sem miðar að því að styrkja raforkuöryggi almennings. Frumvarpið var flutt á 153. þingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt með minni háttar breytingum. Frumvarpið er samið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, að höfðu samráði við Orkustofnun. Áform um lagasetninguna og drög að frumvarpinu voru kynnt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Í samráðskafla greinargerðar er greint frá umsögnum og viðbrögðum við þeim.

Með frumvarpinu eru stigin skref í samræmi við tillögur starfshópa sem fjallað hafa um orkuöryggi á heildsölumarkaði fyrir raforku. Lagðar eru til breytingar á raforkulögum sem miða að því að styrkja raforkuöryggi almennings og forgangsröðun í samræmi við langtímaorkustefnu til ársins 2050 sem gefin var út af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í september 2020 í þverpólitískri sátt. Breytingarnar snúa að því að tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra orsaka og ef önnur úrræði eru ekki tæk. Þá er mælt fyrir um söfnun og miðlun upplýsinga varðandi raforkuöryggi á heildsölu- og smásölumarkaði. Kveðið er á um viðmið fyrir raforkuöryggi og öflun og miðlun upplýsinga um stöðu á heildsölumarkaði raforku.

Raforkuöryggi og tryggt framboð raforku eru grundvallarþættir í þjóðaröryggi Íslands. Á síðustu árum hefur nýting virkjana farið jafnt og þétt vaxandi. Eftirspurn hefur vaxið hraðar en sem nemur auknu framboði. Afleiðingin er minna svigrúm til að bregðast við áföllum í vinnslu- og flutningskerfi raforku eða óvæntri minnkun á framboði á heildsölumarkaði og almennum markaði. Þetta getur skapað veikleika í kerfinu að því er varðar framleiðsluöryggi og nægjanlegt raforkuframboð.

Í raforkulögum kemur fram að ef ófyrirséð og óviðráðanleg atvik valda því að framboð raforku fullnægi ekki eftirspurn beri flutningsfyrirtækinu eða eftir atvikum viðkomandi dreifiveitu að grípa til skömmtunar. Við skömmtun skal gæta jafnræðis og byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem skulu nánar útfærð í reglugerð. Í orkustefnu fyrir Ísland segir að þegar komi að forgangsröðun orkuframboðs, hvort sem er til lengri eða skemmri tíma, skuli almenningur og þjónusta í almannaþágu ávallt njóta forgangs umfram aðra hagsmuni. Með frumvarpinu er því lagt til að sérstaklega verði tekið fram að almennir heimilisnotendur, mikilvægir samfélagsinnviðir og fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn og ársveltu eða efnahagsreikning allt að 1,5 milljörðum kr. skuli njóta forgangs komi til skömmtunar. Tekið er mið af ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB þar sem mælt er fyrir um skyldu aðildarríkja til að tryggja öllum heimilisnotendum alþjónustu, þ.e. rétt á að fá afhenta raforku af ákveðnum gæðum á sanngjörnu verði sem er gegnsætt, auðveldlega samanburðarhæft og felur ekki í sér mismunun. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að skömmtun sé þrautavaraúrræði og verði ekki beitt nema önnur úrræði dugi ekki til, svo sem keyrsla varaaflsstöðva eða önnur úrræði sem standa til boða hverju sinni.

Upplýsingaöflun og upplýsingagjöf er mikilvægur þáttur í því að veita markaðsaðilum upplýsingar um stöðu raforkukerfisins, m.a. hvað varðar raforkuöryggi. Samkvæmt reglugerð um Orkustofnun, nr. 400/2009, ber stofnuninni að tryggja söfnun upplýsinga og gera orkuspá. Hlutverk flutningsfyrirtækisins Landsnets samkvæmt raforkulögum er að vinna kerfisáætlun. Kerfisáætlun skiptist í langtímaáætlun um fyrirhugaða uppbyggingu flutningskerfisins næstu tíu árin og framkvæmdaáætlun vegna ákvarðana um fjárfestingar í flutningskerfinu næstu þrjú árin. Stjórnvöld og Landsnet afla nú þegar ýmissa upplýsinga og gera skýrslur og spár um framtíðarþróun en vinnan er dreifð og fer ekki fram í þeim skýra tilgangi að leggja mat á öruggt framboð raforku. Með þessu frumvarpi er lagt til að mælt verði fyrir um mat á fullnægjandi raforkuöryggi og viðmið þess í raforkulögum. Ábyrgð á slíku mati verði á hendi Orkustofnunar en með reglugerð megi fela flutningsfyrirtækinu Landsneti að vinna matið eða afmarkaða þætti þess. Markmið með slíkri söfnun og miðlun er aukin virkni heildsölu- og smásölumarkaðar og að hægt sé að leggja mat á stöðu orkuöryggis. Með auknu gagnsæi í heildsölu og smásölu eru jafnframt auknar líkur á virkari raforkumarkaði sem stuðlar að auknu orkuöryggi. Með því að kveða á um sérstakt mat á raforkuöryggi og söfnun gagna þar um ætti að fást betri yfirsýn yfir raforkumarkaðinn sem leiðir væntanlega til betri nýtingar.

Að lokum skal tekið fram að með þessu frumvarpi eru stigin skref í stóru verkefni sem er orkuöryggi almennings. Í ráðuneytinu er unnið að greiningu og útfærslu á fleiri þáttum sem að öllum líkindum munu kalla á frekari tillögur að lagabreytingum.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins en ég vil að gefnu tilefni upplýsa að Landsvirkjun hefur upplýst um að staða miðlunarlóna er slík að auknar líkur eru á að grípa þurfi til skerðinga í lok árs 2023 og á árinu 2024 ef vatnsstaðan breytist ekki til hins betra. Einnig eru komnar fram upplýsingar um að eftirspurn eftir grunnorku frá Landsvirkjun sé umfram framboð. Ég vil því beina því til hv. atvinnuveganefndar að nefndin hafi hliðsjón af þessum nýju upplýsingum og taki til skoðunar hvort grípa skuli til frekari ráðstafana, eftir atvikum tímabundinna, til að tryggja fullnægjandi framboð á raforku til almennra heimilisnotenda og smærri fyrirtækja og vænti ég góðs samstarfs við hv. atvinnuveganefnd vegna þessa máls. Í stuttu máli er staða lónanna þannig að við verðum að halda vöku okkar og grípa hugsanlega til varúðarráðstafana ásamt því að við höldum áfram þeirri vinnu sem við erum með sem miðar að því að koma með fullnægjandi fyrirkomulag þannig að raforkuöryggi almennings og fyrirtækja verði ávallt tryggt.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar.