154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

afstaða stjórnvalda í utanríkismálum.

[15:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að það er allt of djúpt í árinni tekið og bara beinlínis rangt að sú afstaða sem birtist hjá forsætisráðherra og þingflokki Vinstri grænna sé í andstöðu við þá utanríkisstefnu sem Ísland kynnti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það sem máli skiptir hér er þá að gera grein fyrir því með hvaða hætti Ísland gerði grein fyrir sínu atkvæði á allsherjarþinginu. Mér er skapi næst að lesa hér frá orði til orðs þá yfirlýsingu sem við Íslendingar komum með inn á þingið og fulltrúi okkar flutti. Það er enginn efnislegur ágreiningur um þau meginatriði sem við höfum lagt áherslu á í allsherjarþinginu, sem er að það verði að gera vopnahlé, það verði að fylgja alþjóðalögum án undantekninga og það verði að koma neyðarbirgðum til fólks sem þjáist og er í algerri neyð. Við höfum síðan sýnt í verki vilja okkar til að koma meiri stuðningi til þeirra stofnana sem sinna sérstaklega mannúðarstarfi á svæðinu og höfum í tvígang, frá því að þessi hörmulega, hrikalega hryðjuverkaárás átti sér stað fyrir mánuði síðan, aukið við framlög okkar. Ég bara kannast ekki við að það sé ágreiningur um utanríkisstefnu Íslands þó að það komi mér ekkert á óvart að menn sjái einhver pólitísk sóknarfæri í því að halda því fram. Og ég verð bara og ætla að flytja hingað inn í þingsal og til hv. þingmanns skilaboð frá óbreyttum þingmanni sem hlustar á þennan málflutning hér í þinginu, þegar hann veltir upp þeirri spurningu við mig: Hefur stjórnarandstaðan ekkert uppbyggilegra til málanna að leggja en þetta?