154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

áhrif launahækkana og hagnaðardrifin verðbólga.

[15:36]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði að 70% hjá matvælafyrirtækjum væru vegna launakostnaðar. Förum aðeins nánar yfir áhrif launa á þennan mikla hagnað íslenskra fyrirtækja. Ef tekið er tillit til þess að laun og starfsmannakostnaður Festis fyrstu níu mánuði ársins voru 11,3% af veltu Festis voru áhrif kjarasamninga um 1,23% á heildarveltu. Kjarasamningar ollu 10,9% hækkun launa og starfsmannakostnaðar hjá Festi fyrstu níu mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra og sú hækkun nam 1,25% heildarkostnaðar. Ég vil því spyrja ráðherra: Hvernig skýrir 1,25% hækkun á heildarkostnaði 9,1% hækkun verðs á matar- og drykkjarvörum frá undirritun kjarasamninga í byrjun desember 2022 til loka þriðja ársfjórðungs 2023? Getur verið að þetta sé ekki því að kenna að fólk á nánast lægstu launatöxtum samfélagsins fékk launahækkun, heldur sé frekar um hagnaðardrifna verðbólgu að ræða? (Forseti hringir.) Spjótum er alltaf beint að launþegum þó að það sé talað um að það séu margar ástæður. Gögnin sýna þó að þetta er ekki út af launþegum.