154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

fordæming stríðsglæpa á Gaza og mannúðarhlé.

[15:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki fordæming að kalla eftir mannúðarhléi. Fordæming felur í sér skýra afstöðu frá ríkisstjórninni opinberlega á alþjóðavettvangi, ekki í gegnum viðtöl eða Facebook-statusa þar sem þarf að lesa milli línanna hver afstaða ríkisstjórnarinnar er. Íslensk stjórnvöld hafa nú þegar opinberlega fordæmt árásir Hamas-samtakanna, og árásir Ísraelshers á almenna palestínska borgara og takmarkanir á nauðsynjum fela í sér ólögmætar ofsóknir sem ber að fordæma opinberlega. Við í Pírötum erum búin að leggja fram þingsályktunartillögu sem bæði þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna taka undir og við hvetjum þingmenn allra flokka, þ.m.t. auðvitað hæstv. utanríkisráðherra, til að styðja tillögu þessa og þar með fordæma opinberlega aðgerðir Ísraelshers í Palestínu.