154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

bótagreiðslur til bænda vegna niðurskurðar búfjár.

[15:48]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni að vekja máls á þessum atriðum og taka undir þau orð sem komu fram í fyrirspurn þingmannsins um það hversu mikið gleðiefni það er sannarlega að nú eru að renna upp nýir tímar þar sem við getum loksins reynt ný meðul til að ná þeim árangri sem hefur verið stefnt að síðastliðin 40 ár, sem er að útrýma riðu á Íslandi. Það eru auðvitað mörg skref eftir þangað en við erum lögð af stað og ég finn að það er aukin bjartsýni hvað þessa hluti varðar og með hverri rannsókn vitum við meira og þá skiljum við þetta jafnframt betur. Eins og þingmaðurinn tekur fram var reglugerð undirrituð og birt í síðustu viku um það að unnt væri að gefa kost á því að hlífa þeim hluta hjarðarinnar sem sannarlega væri með verndandi arfgerð gegn riðu.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um bótagreiðslur og bótauppgjör þá er ekki hárnákvæmt að segja að það sé ósamið, það er búið að greiða megnið af því sem þarna var rætt um. Staðan er í raun og veru þannig að það standa út af ýmis álitamál sem er mikilvægt að leiða í jörð og þannig er staðan í mínu ráðuneyti að samskipti eru í gangi og eiga sér stað við hagsmunaaðila þarna. Ég hef sjálf lagt mikla áherslu á að það takist og náist farsæl niðurstaða í þeim málum. Og það sem hv. þingmaður spyr um varðandi stöðuna og ástæðuna fyrir henni þá er það auðvitað þannig að það er ákveðinn rammi sem lögin setja okkur sem ekki er unnt að fara út fyrir. En ég tel að það sé mikill vilji beggja vegna borðs að ná niðurstöðu í þessu máli.