154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

bótagreiðslur til bænda vegna niðurskurðar búfjár.

[15:52]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í máli hv. þingmanns er staðan sú að lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim kveða á um tiltekinn bótarétt þeirra sem sæta ákvörðun stjórnvalda um niðurskurð og um þær bætur er fjallað í reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar. Það er unnið að samningagerð vegna þessara tilteknu bótagreiðslna sem hv. þingmaður nefnir. En það má jafnframt nefna það að þegar við erum að draga saman í raun og veru bæði það félagslega og efnahagslega tjón sem bændur verða fyrir og hafa orðið fyrir í gegnum árin þá er það alveg á hreinu að sú ráðstöfun sem gripið hefur verið til, og fjárveitingavaldið hefur stutt mig í, er að gera ráð fyrir aukinni fjárveitingu til að innleiða verndandi arfgerð gegn riðuveiki vegna þess að sú ráðstöfun fjár mun leiða til þess að þessi mál verði að baki. Það er gert ráð fyrir að þessi útgjöld mæti kostnaði vegna arfgerðargreiningar til að innleiða sem hraðast (Forseti hringir.) verndandi arfgerðir í sauðfjárstofninn og í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar. Ég held að við getum öll fagnað þeim skrefum.