154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

stöðumat vegna COP28.

[15:59]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Allt tengist þetta nú. Ég ræddi ekki þriðja bókhaldskerfið sem er LULUCF, sem er landgræðslan og skógræktin, en látum það liggja á milli hluta, það er ekki annað hægt í svona stuttu andsvari. Loftslagsbókhaldið sýnir náttúrlega stöðu okkar á hverjum tíma fyrir sig og frá árinu 2005, sem er viðmiðunarárið og þá voru 300.000 Íslendingar og 300.000 ferðamenn, erum við búin að minnka losunina um 12%. Samkvæmt nýjustu upplýsingum erum við miðað við þær sviðsmyndir sem uppi eru að minnka losunina um 24% en með því að nota þær heimildir sem við höfum annars staðar frá þá ættum við að geta náð því sem við erum nú þegar búin að skuldbinda okkur til að gera, sem er 29%. Þetta hefur nú allt komið fram en kannski ekki vakið mikla athygli. Síðan er aðgerðaáætlun sem er grunnurinn að því að sjá hvort við getum náð þeim árangri sem menn vonast til. Það er auðvitað, eins og ég er búinn að nefna margoft, mikið og stórt verkefni og mikilvægt. Við erum svo sem ekkert ein í því að þetta sé stórt verkefni, (Forseti hringir.) en það er mjög mikilvægt að það sé rætt út frá staðreyndum og út frá raunhæfum leiðum til að ná þeim markmiðum. Við náum því miður ekki, (Forseti hringir.) ég og hv. þingmaður, að klára það núna á þessum mínútum enda er hæstv. forseti mjög mikið að slá í bjölluna og ég held að það sé rétt að ég yfirgefi þennan ræðustól.