154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

fundur aðildarríkja samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum.

375. mál
[16:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að ræða þessi mál hér í þinginu sem kannski eru ekki svona í dagsdaglegri mikilli umræðu og ég leyfi mér að segja hreint út að ég efast um að allur þingheimur sé mjög vel með á nótunum um hvað er að gerast á þessum vettvangi. En þetta er auðvitað mjög mikilvægt eins og hv. þingmaður er að nefna. Ég ætla þó bara byrja á því að segja að þátttaka Noregs og Þýskalands verður að skoðast í ljósi þeirra yfirlýsinga sem ríkin hafa gefið. Þau hafa ákveðið að sækja þessa fundi en hafa tekið fram, t.d. Noregur á síðasta fundi, að þátttaka áheyrnarfulltrúa í fundinum væri ekki skref í átt að undirritun bannsamningsins enda væri aðild að samningnum ósamrýmanleg skuldbindingum Noregs gagnvart Atlantshafsbandalaginu og sérstaklega áréttað að Noregur standi að fullu á bak við afstöðu Atlantshafsbandalagsins til kjarnavopna. Það má segja að sambærileg yfirlýsing hafi komið frá Þýskalandi á sama fundi um að bannsamningurinn samræmdist ekki aðild að Atlantshafsbandalaginu og fælingarstefnu bandalagsins og það var sömuleiðis vísað til breyttrar stöðu í öryggismálum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Ég vil nota tækifærið engu að síður til að halda því til haga að afstaða Íslands til kjarnavopna er skýr og hún er sú að það skuli stefna að kjarnorkuvopnalausri veröld, eins og hv. þingmaður gerir ákall um, og að kjarnavopnum sé eytt með markvissum og gagnkvæmum hætti. Ísland hefur stutt margvíslegar ályktanir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í áranna rás sem lúta að þessu markmiði. Stefna Íslands samræmist grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins sem var samþykkt í Madríd í júní í fyrra en þar segir að stefnt skuli að heimi án kjarnavopna. Í þessum efnum skiptir hins vegar máli að vera raunsæ. Þar tilgreinir stefnan, nú eins og áður, kjarnavopn sem hluta af fælingar- og varnarstefnu bandalagsins á meðan slík vopn fyrirfinnast yfir höfuð. En eins og staðan er í dag þá styðja engin aðildarríki bandalagsins samninginn og Ísland, eins og önnur bandalagsríki, hefur fylgt sömu stefnu og þeim pólitísku skuldbindingum sem í aðildinni felast. Það má svo sem velta því upp hvort stefna Atlantshafsbandalagsins feli í sér einhvers konar velþóknun á kjarnavopnum, en það er alls ekki svo. Endanlega markmiðið er skýrt; að fækka kjarnavopnum og gera það með gagnkvæmum hætti, leita leiða til að skilyrði skapist svo þeim sé hægt að eyða.

Í yfirlýsingu leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Vilníus í sumar var andstaða aðildarríkjanna við bannsamninginn ítrekuð, m.a. með vísan til þess að hann samræmist ekki fælingarstefnu bandalagsins, taki ekki tillit til stöðu öryggismála í heiminum, sé á skjön við núgildandi skipulag um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar og grafi undan samningnum um bann við útbreiðslu kjarnavopna, NPT-samninginn svokallaða sem hv. þingmaður vísaði til.

Þá kannski stendur eftir spurningin: Er þetta þá allt vonlaust? En það er vert að minna á að margvíslegur árangur hefur náðst í fækkun kjarnavopna. Þannig hefur kjarnavopnum undir stjórn Atlantshafsbandalagsins fækkað um rúmlega 90% frá því að kalda stríðið stóð sem hæst. Hér er því í sjálfu sér ekki deilt um markmiðið heldur er verið að reyna að feta slóðina með öruggum hætti í leið að settu marki.