154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

fundur aðildarríkja samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum.

375. mál
[16:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hæstv. utanríkisráðherra með það að við þurfum að vera raunsæ þegar kemur að kjarnorkuafvopnun, því að þó svo að við kunnum að vera ósammála um leiðina þá held ég að við séum alveg sammála um að við viljum kjarnavopnalausan heim og við gerum okkur grein fyrir hættunni. Ég hef flutt þingsályktunartillögur þess efnis að Ísland verði aðili að þessum samningi og myndi þess vegna auðvitað vilja sjá Ísland eiga fulltrúa sinn á þessum fundi jafnvel þó að það væri ekki meiri hluti fyrir því að verða aðili að samningnum því að ég held að það skipti máli, þó svo að kjarnorkuvopnum hafi ekki fjölgað þá eru þau að stækka. Kjarnorkuveldin eru að endurnýja vopnabúrin sín og á alþjóðavísu er verið að grafa undan gildandi samningum sem þó hafa náðst. Þessi samningur er orðinn að alþjóðasamningi þó svo að við séum ekki aðilar að honum. Ég hef þá trú að í fyllingu tímans verði hann jafn mikilvægur og aðrir samningar svo sem um að banna (Forseti hringir.) jarðsprengjur, sem var komið á gegn vilja þeirra sem áttu þau vopn. (Forseti hringir.) Þannig að ég tel að Ísland eigi á alþjóðavettvangi að taka þátt í umræðunni.