154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

þróunarsamvinna og réttindabarátta hinsegin fólks.

361. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Undanfarið höfum við því miður orðið vitni að bakslagi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks, meira að segja í okkar heimshluta. Í heiminum öllum telst mér svo til að í einu af hverjum þremur ríkjum teljist hinsegin sambönd enn glæpur samkvæmt lögum. Ástandið er mjög slæmt að þessu leyti víða í Afríku og í Miðausturlöndum, m.a. þar sem við störfum við þróunarsamvinnu. Hryllingssögur þaðan um ofsóknir á hinsegin fólki láta engan ósnortinn.

Sem dæmi má nefna að nýlega undirritaði forseti Úganda þá löggjöf heims sem gengur lengst í andstöðu við réttindi hinsegin fólks. Við erum með sendiráð í Úganda og höldum þar úti tvíhliða þróunarsamvinnu til áratuga. Nú liggur m.a. dauðarefsing við samkynhneigð í ríkinu en lögin voru samþykkt á þingi Úganda með yfirgnæfandi meiri hluta.

Því langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki sé örugglega lögð sérstök áhersla á réttindabaráttu hinsegin fólks í þróunarsamvinnu Íslands, hvort við fylgjumst þá sérstaklega með stöðu mála hvað varðar réttindi hinsegin fólks í samstarfsríkjum og í áhersluríkjum okkar í þróunarsamvinnu, og hvort hæstv. ráðherra hyggist leggja aukna áherslu á réttindabaráttu hinsegin fólks í þróunarsamvinnu Íslands og þá með hvaða hætti. Fullt tilefni virðist þarna vera til.