154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

vinnsla jarðefna af hafsbotni.

430. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Forseti. Ég þakka svarið. Þegar ráðherra talar um að við þurfum að skipuleggja okkur betur þá fæ ég smákvíðahnút í magann vegna þess að þetta er að gerast þessa dagana. Það að skipuleggja okkur betur hljómar alltaf eins og eitthvert langtímaverkefni sem skilar ávöxtum eftir jafnvel nokkur ár. Staðan er nefnilega sú að norska Stórþingið er að ræða þessi mál þessa dagana. Það var nefndarfundur í orkunefnd Stórþingsins í síðustu eða þarsíðustu viku, að mig minnir, þar sem er farið yfir þessar tillögur ríkisstjórnarinnar og ég veit bara ekki hvort við höfum tíma til að hreyfa andmælum einhvern tímann seinna. Ég velti því upp hvort ráðherrann ætti kannski að hnippa í sendiráð Íslands í Ósló og athuga hvort þau geti viðað að sér einhverjum gögnum og jafnvel athugað hvernig sé hægt að beita sér í þessu máli. Ekkert erindi hefur borist íslenskum stjórnvöldum ef ég skil hæstv. ráðherra rétt. Ég held að það sé engin tilviljun. Ef maður skoðar kortið af áhrifasvæðinu í umhverfismatsskýrslunni sem fylgdi þessu inn í Stórþingið þá virðast norsk stjórnvöld vera búin að tálga mjög vandlega utan um það sem gæti mögulega snert íslenska hagsmuni þannig að það svæði á Drekasvæðinu, þar sem Ísland og Noregur gerðu gagnkvæman samning um að deila ábata af olíuauðlindum og öðrum auðlindum á og undir landgrunninu á sínum tíma, er bara tekið út þannig að það er ekki verið að skoða Noregsmegin þann hluta Drekasvæðisins vegna þess að ég held að norsk stjórnvöld vilji ekkert endilega að ráðherra sé að pota í þetta. Og þess þá heldur held ég að hann ætti að gera það vegna þess að sú starfsemi sem hér um ræðir, að ná þessum manganklumpum af hafsbotni er meira en að segja það. Þetta eru svona hnefastórir hnullungar sem eru ryksugaðir af hafsbotninum með þvílíku róti, (Forseti hringir.) á búsvæði á hafsbotni, með þvílíkum hávaða sem berst mörg hundruð kílómetra og truflar alls konar lífríki, með þvílíkri mengun. (Forseti hringir.) Það verður ekkert skyggni þarna neðan sjávar. Ég held að hér sé fullt tilefni fyrir íslensk stjórnvöld að beita sér gagnvart þeim norsku.