154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

bann við olíuleit.

374. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég hef oft talað um það sem uppáhaldssetninguna mína í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að ekki skuli gefin út leyfi til olíuleitar á íslensku yfirráðasvæði. Þar með bundum við mörg vonir við að væri settur punktur aftan við það tímabil í stjórnmálasögunni að einhverja dreymdi um að Ísland væri að framleiða eitthvað af þessum vökva sem veldur loftslagsbreytingum, að við gætum bara sagt skilið við það tímabil í okkar sögu. Eitthvað beið með að við sæjum á spilin hjá ríkisstjórninni en þó gerðist það að hæstv. ráðherra lagði fram frumvarp þessa efnis fyrir tveimur löggjafarþingum, sem kom reyndar það seint fram að ekki náðist að mæla fyrir því. En síðasta vetur áttum við hæstv. ráðherra orðastað, að ég tel nokkrum sinnum, þar sem ég spurði hvenær við fengjum að sjá þetta frumvarp aftur vegna þess að við hlökkuðum nokkur dálítið til að sjá það og geta afgreitt það hér í þingsal. Seinna, seinna, sagði ráðherrann og reyndar kom fram í svari við fyrirspurn rétt undir lok síðasta vetrar að mál þessa efnis myndi koma fram í haust. Svo kom haustið og hvergi sést þetta frumvarp lengur á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

Þess vegna er ég hér kominn til að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna frumvarpið sé ekki lengur sett á þingmálaskrá, hvort við eigum að skilja það sem svo að ríkisstjórnin ætli þá ekki að fylgja þessari setningu í samstarfsyfirlýsingunni eftir með lagasetningu. Og ef það er málið, til hvaða aðgerða eigi þá að grípa til að framfylgja þessari stefnumörkun í samstarfsyfirlýsingunni, hvað hafi verið gert og hvað standi til að gera. Því það skiptir máli að ekki bara tala um þetta heldur líka að fylgja því eftir með aðgerðum og skýrustu aðgerðirnar sem stjórnvöld og löggjafinn geta gripið til eru löggjöf. Það að setja lög sem gerðu það skýrt að Ísland myndi ekki leita að olíu í framtíðinni væri ekki bara gott merki heldur er í raun það eina sem hægt er að gera. Nú síðast í október kom frá Alþjóðaorkumálastofnuninni sviðsmyndagreining sem sýndi að eina leiðin til að halda mannkyni innan 1,5°C marka Parísarsáttmálans væri ef það yrðu engin ný jarðefnavinnsluverkefni sett af stað, ekki einn einasti nýi olíu- eða gasborpallur, (Forseti hringir.) ekki ein einasta nýja kolanáma. Ef við ætlum að ná (Forseti hringir.) sameiginlegu markmiði mannkyns þá megum við ekki gera meira af þeirri vitleysu.