154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

bann við olíuleit.

374. mál
[16:59]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það stendur í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin muni ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands og við það verður staðið. Hv. þingmaður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því. En af því að hv. þingmaður vísaði hér til vandans og lausnanna þá verð ég bara að vera einlægur með það að ég sakna þess að hv. þingmaður styðji það á borði, ég sakna þess. Mér brá mjög þegar ég tók við þessu embætti, eftir að vera búinn að vera utanríkisráðherra í fimm ár og ræða loftslagsmálin öll þessi ár, við að koma hingað heim og heyra í þeim sem í orði styðja loftslagsmarkmiðin en á borði vinna gegn þeim. Út á hvað gengur málið? Hv. þingmaður vísaði hér til þess en sagði bara hálfa söguna eða brot af sögunni þegar hann var að tala um það út á hvað málið gengi. Hv. þingmaður vísaði til þess að það væri mikilvægt að hefja ekki meiri olíuvinnslu eða jarðefnavinnslu, jarðefnaeldsneytisvinnslu. Og hvað svo? Hvað er það sem þeir sem tala fyrir þessu á alþjóðavettvangi eru að leggja áherslu á? Hvað skyldi það nú vera? Þeir eru að tala um það að nýta græna orku til að ná loftslagsmarkmiðunum. António Guterres t.d., aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur margoft bent á að það þurfi að einfalda leyfisveitingaferlið í heiminum vegna þess að okkur vantar græna orku. Hann er þá að vísa til þess að einfalda það að við getum nýtt græna orku. Hann lætur alltaf fylgja með að við eigum ekki að gefa afslátt af þeim markmiðum sem við erum með þegar kemur að leyfisveitingum en að markmiðið sé alveg skýrt, það vanti græna orku. Það vantar græna orku til að ná loftslagsmarkmiðunum.

Við höfum hér stigið mjög stór skref til þessa og á fyrstu þremur mánuðum þessarar ríkisstjórnar var gengið frá nokkru sem hefur ekki verið gert í níu ár en á að gera ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti og það var að ganga frá rammaáætlun, til þess að það sé skýrt hvað sé í nýtingarflokki og til þess að við getum nýtt það. Um það var ekki samstaða og sumir hv. þingmenn, þar með talinn hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, greiddu atkvæði gegn því að það væri hægt að nýta græna orku á Íslandi. Nú er það fullkomlega eðlilegt að menn segi: Heyrðu, ég er ósáttur við það að við séum að fara þessa leið við að nýta græna orku, ég vil fara aðra leið við að nýta græna orku. En ekkert slíkt hefur komið fram. Og eitt er algjörlega 100%, virðulegi forseti, og það er að við Íslendingar erum ekkert öðruvísi en aðrar þjóðir að því leytinu til að ef við ætlum að ná loftslagsmarkmiðunum þá þurfum við að taka út jarðefnaeldsneyti og við þurfum að setja græna orku í staðinn, og okkur liggur á vegna þess að við erum með gríðarlega háleit markmið þegar að því kemur.

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður spyr um er ekkert vandamál. Við þurfum ekki hafa neinar áhyggjur af því að framfylgja þessu í ríkisstjórnarsáttmálanum. Það eru önnur vandamál þegar kemur að loftslagsmálum því að við eins og aðrar þjóðir, allar þjóðir Sameinuðu þjóðanna, nýtum orku og það eru engar hugmyndir um það í heiminum að mér vitandi að hætta að nýta orku, en við erum að reyna að koma út jarðefnaeldsneytinu og setja græna orku í staðinn.