154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

bann við olíuleit.

374. mál
[17:07]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það er engin beiðni komin um neina leit á þessu og það verður ekki vandamál að framfylgja þessu eins og ég er margoft búinn að benda á. En hv. þingmaður getur ekki falið sig á bak við þau orð sem hann fór með hér. Ef hv. þingmaður er í fullri alvöru að berjast fyrir loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar, sem hann ranglega talar um að séu ekki háleit — hv. þingmaður skal ekki gleyma því að það er ekki okkur að þakka sem hér erum heldur foreldrum okkar, öfum og ömmum að við fórum í orkuskipti eitt og tvö og stöndum þar af leiðandi betur en aðrir. Það þýðir einfaldlega, virðulegi forseti, að þær þjóðir sem við erum að bera okkur saman við, erum að vinna saman með, geta með auðveldari hætti farið í hluti sem við fórum í á síðustu öld. En það er alveg sama hvernig menn reyna að tala sig út úr staðreyndum því að staðreyndirnar blasa alltaf við og þær eru eftirfarandi: Til þess að ná loftslagsmarkmiðum þarf græna orku. Svo einfalt er það. Og ef menn greiða atkvæði gegn því að það sé verið að afla grænnar orku þá eru menn að koma í veg fyrir að það sé hægt að ná loftslagsmarkmiðum. Svo einfalt er það. Það er ekki nokkur einasta leið fyrir okkur, virðulegi forseti, að ná árangri í loftslagsmarkmiðum ef menn klára ekki rammaáætlun. Það er bara ekki nokkur einasta leið, ekki ein einasta leið. Þannig að ef hv. þingmaður er einlægur í því og heill í því að berjast fyrir því að við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum, sem er mjög strembið, þá er það ekki hægt nema við nýtum endurnýjanlega, íslenska græna orku.