154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

endurgreiðslukerfi vegna viðgerða á rafmagnstækjum.

391. mál
[17:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn sem ég beini hér til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra snýst um að minnka sóun og mögulega leið til að efla hringrásarhagkerfið. Þetta eru tvö atriði sem skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að náttúruvernd, að það þurfi ekki sífellt að brjóta nýtt land undir framleiðslu og neyslu, og skiptir líka máli í loftslagsmálum. Spurningarnar sem ég beini til hæstv. ráðherra eru eftirfarandi:

Er vitað hversu háu hlutfalli af raftækjum á Íslandi er hent án þess að athugað sé hvort viðgerð væri möguleg?

Hefur verið skoðað að taka upp styrki eða endurgreiðslukerfi vegna viðgerða á litlum raftækjum eins og símum? Telur ráðherra fýsilegt að koma á slíku kerfi?

Kveikjan að þessari fyrirspurn er raunar frétt sem ég las á RÚV fyrr í haust þess efnis að niðurgreiðslur á raftækjaviðgerðum hafi gefið góða raun í Austurríki þar sem litið er á þetta sem lið í því að efla hringrásarhagkerfið. Af fyrstu reynslu virðist vera að þetta auki hvata til þess að fólk, sem hafi til að mynda áður ekki látið gera við snjallsímana sína vegna þess að það hafi talið það of dýrt, hafi frekar valið að fara með símana í viðgerð. Við þekkjum það líklega öll að við erum gjörn á það að henda smáum raftækjum heima hjá okkur frekar en að kanna það hversu fýsilegt er að gera við þau. Mér finnst mikilvægt í ljósi þess hversu mikilvægt það er að ganga ekki endalaust á auðlindir jarðar að við skoðum það í víðara samhengi hvenær það er efnislega fýsilegt að gera við tæki þó svo að það kosti einhverja peninga því að við vitum að það kostar peninga að afla þeirra efna sem þarf í tækin. Það kostar peninga að urða tæki og það kostar peninga að sóa jörðinni. Ég hlakka til að heyra svör hæstv. ráðherra.