154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

endurgreiðslukerfi vegna viðgerða á rafmagnstækjum.

391. mál
[17:12]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða fyrirspurn þar sem hv. þingmaður vísar til þess mikilvæga málaflokks sem hringrásarhagkerfið er. Raf- og rafeindatæki eru í framlengdri framleiðendaábyrgð og er það Úrvinnslusjóður sem sér um framkvæmd ábyrgðarinnar fyrir hönd framleiðanda og innflytjenda tækjanna, samanber lög um úrvinnslugjald. Úrvinnslugjald er lagt á raf- og rafeindatæki sem sett eru á markað hér á landi og er gjaldinu ætlað að standa undir kostnaði við meðhöndlun tækjanna þegar notkun þeirra er hætt og þau verða að úrgangi. Úrvinnslusjóði ber þannig að stuðla að hringrásarhagkerfi og sjálfbærri auðlindanýtingu varðandi raf- og rafeindatæki, auk þess að ná tölulegum markmiðum sem sett hafa verið um raf- og rafeindatækjaúrgang.

Samkvæmt Úrvinnslusjóði má búast við að tæp 13.800 tonn af raf- og rafeindatækjaúrgangi hafi fallið til hér á landi árið 2022. Af þeim söfnuðust tæp 3.700 tonn til meðhöndlunar aðskilin frá öðrum úrgangstegundum. Við ráðstöfun þessa úrgangs fóru rúm fjögur tonn í undirbúning fyrir endurnotkun, 3.600 tonn til endurvinnslu, 31 tonn í aðra endurnýtingu og 28 tonn til förgunar.

Öflugt og virkt hringrásarhagkerfi byggir m.a. á því að koma í veg fyrir myndun úrgangs og að almenningur lengi líftíma hluta í eigu sinni með því að láta gera við það sem bilar eða úr sér gengur eða með því að koma hlutum beint í endurnotkun. Með því móti haldast hlutirnir í notkun og verða ekki að úrgangi. Úrgangsforvarnir sem þessar eru afar mikilvægar þegar kemur að því að draga úr umhverfisáhrifum og er vilji hjá stjórnvöldum til að leggja enn meiri áherslu á þær en verið hefur. Samkvæmt úrvinnslusjóði er ekki þekkt hversu algengt það er að eigendur raf- og rafeindatækja hér á landi leiti mögulegra leiða til viðgerða á tækjunum áður en þeir losa sig við þau og þau verða að úrgangi.

Stjórnvöld hafa skoðað nokkra möguleika til útfærslu á fjárhagslegum stuðningi til einstaklinga til að ýta undir viðgerðir, m.a. á raf- og rafeindatækjum. Í aðgerðaáætlun sem fylgir stefnu ráðherra í úrgangsmálum í átt að hringrásarhagkerfi og kom út í júní 2021 er að finna aðgerð sem ber yfirskriftina: Viðgerða- og viðhaldsþjónusta efld. Markmiðið með aðgerðinni er að draga úr myndun úrgangs með því að lengja líftíma heimilistækja og annarra hluta og er hún tvíþætt. Annars vegar felst hún í því að leggja mat á það hvort afnema eigi álagningu virðisaukaskatts af vinnu við viðgerðir og viðhald á húsgögnum, raf- og rafeindatækjum, reiðhjólum, fatnaði og skóm. Hins vegar felst aðgerðin í að leggja mat á það hvort heimila eigi einstaklingum að sækja afslátt af greiðslu tekjuskatts á grundvelli kostnaðar við keypta vinnu við viðgerðir eða viðhald stórra heimilistækja. Aðgerðin byggir á sænskri fyrirmynd. Þær tillögur sem í aðgerðinni felast fóru til umfjöllunar í starfshópi sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála.

Í skýrslu starfshópsins sem hann skilaði í febrúar síðastliðnum kemur fram sú niðurstaða að ekki sé rétt að afnema virðisaukaskatt af vinnu við viðgerðir og viðhald á húsgögnunum, raf- og rafeindatækjum o.fl., eða að einstaklingum verði veittur skattafsláttur vegna kostnaðar við keypta vinnu við viðgerðir eða viðhald stórra heimilistækja. Starfshópurinn bendir á að virðisaukaskattur sé stærsti einstaki tekjustofn ríkissjóðs og um þriðjungur af heildarskatttekjum hans. Virðisaukaskattur sé því afar öflugt tekjuöflunartæki en um leið hlutlaus gagnvart ólíkum tegundum efnahagsstarfsemi. Öll frávik frá samræmdum virðisaukaskattsreglum skapi ójafnræði milli aðila og séu til þess fallnar að veikja virðisaukaskattskerfið. Það skipti því máli að reynt sé að tryggja eins og kostur er að löggjöf virðisaukaskatts sé einföld, gagnsæ og skýr og með sem fæstum undanþágum til að tryggja tekjur, skilvirkni og skilvirka skattframkvæmd. Einnig geti slík undanþága ýtt undir að vörur og þjónusta sé ranglega flokkuð út frá virðisaukaskatti í skattþrep, hvort sem það er gert vísvitandi eða ekki.

Varðandi afslátt til einstaklinga af tekjuskatti vegna kostnaðar við viðgerðir eða viðhald stórra heimilistækja liggur fyrir að mati starfshópsins að mjög erfitt er að viðhafa eftirlit með slíku fyrirkomulagi. Slík heimild væri mjög matskennd, til að mynda varðandi hvaða heimilistæki féllu undir heimildina eða utan við hana. Starfshópurinn bendir á að það sé bæði gagnsærra og kostnaðarskilvirkara að stuðningsaðgerðir stjórnvalda sem ákveðið sé að ráðist í séu fremur í formi beins stuðnings en að stuðningi sé beint í gegnum skattkerfið. Í umfjöllun um þessa aðgerð bendir starfshópurinn jafnframt á þá reynslu sem liggur fyrir af tímabundinni endurgreiðsluheimild virðisaukaskatts af vinnu við bílaviðgerðir. Reynsla Skattsins af þessu úrræði var sú að um væri að ræða mikinn fjölda umsókna vegna tiltölulega lágra fjárhæða. Mikil vinna hafi því falist í afgreiðslu endurgreiðslubeiðna.

Líkt og áður hefur komið fram eru raf- og rafeindatæki í framlengdri framleiðendaábyrgð í gegnum Úrvinnslusjóð. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum hefur hann ekki skoðað að taka almennt upp greiðslu vegna viðgerða á raf- og rafeindatækjum en í bígerð hefur verið að leita leiða til að stuðla að því að lítil upplýsingatækni- og fjarskiptatæki, svo sem símar, fari í endurnotkun í meira mæli. Sjóðurinn er jafnframt virkur þátttakandi í evrópsku samstarfi um meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs og fylgist vel með þróun mála á þessum vettvangi.