154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

endurgreiðslukerfi vegna viðgerða á rafmagnstækjum.

391. mál
[17:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna í kringum þessa fyrirspurn. Ég tel að þetta sé gríðarlega mikið umhverfismál og ég vil horfa í þær áttir að við verðum sjálf meira meðvituð um það, af því að það styttist nú í svartan föstudag og brjálaðan mánudag og þá rennur oft kaupæði á landsmenn, ekki bara hér heldur erlendis líka. Mér finnst það sem var gert á Akureyri fyrir ekki svo mörgum árum síðan þar sem Restart Iceland var með í FabLab í Verkmenntaskólanum á Akureyri, þar sem rafvirkjar og aðrir áhugamenn voru að hjálpa fólki og kenna því að gera við hin ýmsu tæki — og það er kannski eitthvað sem fólk hélt ekki almennt að það gæti gert. Það voru sléttujárn, Playstation-tölva, geisladiskaspilarar, spjaldtölvur og brotinn skjár á síma o.s.frv. Þetta var eitthvað sem fólk taldi ekki að það gæti gert við, hvað þá að geta gert það sjálft, en lærði það þarna, alveg eins og þegar stagað er í sokka. Það er ýmislegt sem hægt er að gera. Ég held að fyrst og fremst eigi markmiðið að vera það, ef við ætlum að reyna að takmarka úrgang, að við þurfum að vera meðvitaðri um að við getum kannski gert eitthvað sjálf til að laga.