154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

endurgreiðslukerfi vegna viðgerða á rafmagnstækjum.

391. mál
[17:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og eins þeim sem hafa tekið þátt í þessari örumræðu. Úrvinnslusjóður er mikilvægur en ég held að við þurfum að gefa þar alveg rosalega í og flýta öllum aðgerðum og efla allt þar miklu frekar. Ég vil bara nota tækifærið og brýna hæstv. ráðherra til þess að vera með forystu og sýna hana í þeim efnum. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra í því að ég er ekki viss um að það sé góð hugmynd að fara í gegnum virðisaukaskattskerfið og ég er sammála hæstv. ráðherra í því að það er kerfi sem við eigum almennt að standa vörð um. En ég held hins vegar að það þurfi að finna leið og það þurfi bara að byrja og prófa leiðir sem virka því að við getum ekki beðið. Náttúran getur ekki beðið. Ég tel til að mynda að það gæti verið hyggilegt að taka upp einhvers konar endurgreiðslur eða beina styrki til fólks sem lætur reyna á það að gera við raftækin sín og jafnvel einhverja fleiri hluti því að þetta snýst um að breyta samfélagi, breyta neysluvenjum, breyta hegðun. Þar berum við öll ábyrg. Almennt myndi ég segja að það liggi gríðarstór ábyrgð á framleiðendum og fyrirtækjum en ég held að hér gæti mögulega fljótvirkasta leiðin til að ná fram breyttu neyslumynstri verið að almenningur sæi beinan ávinning af því að mæta með raftækið sitt í viðgerð. Mig langar að stinga því að hæstv. ráðherra.