154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

réttur eftirlifandi foreldris til sorgarleyfis.

333. mál
[17:30]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir þessa góðu fyrirspurn og fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli hér á Alþingi. Á vorþingi 2022 lagði ég fram frumvarp til laga um sorgarleyfi sem var samþykkt í júní 2022 og lögin tóku gildi 1. janúar á þessu ári. Líkt og kom fram í ræðu minni hér á Alþingi tók Ísland forystu innan Norðurlandanna hvað þetta varðar við gildistöku laganna en í nágrannaríkjum okkar var þó almennt ekki að finna sambærilegan rétt foreldra og lögin kveða á um en þó mátti í tilteknum tilvikum finna tveggja til fimm daga rétt til leyfis frá störfum vegna ástvinamissis. Nú er mér ekki kunnugt hvort staðan á Norðurlöndunum sé enn sú sama en ég þori að fullyrða að hvergi hafi verið gengið eins langt hvað þetta varðar og hér á landi og er það vel.

Þá vil ég líka rifja það upp hér að í samræmi við markmið laganna er skýringin á hugtakinu foreldri rýmri í lögunum en almennt á við um hugtakið í annarri löggjöf hér á landi, þannig að það geta verið fleiri en tveir einstaklingar sem eiga rétt á sorgarleyfi vegna andláts barns en um er að ræða sjálfstæðan rétt hvers og eins foreldris. Alþingi Íslendinga getur því að mínu mati verið stolt af þeirri framsýni sem þessi lagasetning ber með sér. Í mínum huga er alveg ljóst að samþykkt laganna fól í sér mikilvægt fyrsta skref þegar kemur að sorgarleyfi og til hvaða þátta það nær. Það er jafn ljóst í mínum huga að við þurfum að stíga stærri skref í framhaldinu og fjölmargir umsagnaraðilar voru á sama máli þegar frumvarp mitt var til umfjöllunar hér á Alþingi. Ágætt frumvarp hv. þingmanns sem hér talaði á undan mér er líka dæmi um slíkt mál.

Þá komum við kannski akkúrat að þessu umræðuefni sem hv. þingmaður hefur tekið upp hér á Alþingi í dag og spurninguna um hvort einstaklingar sem missa maka frá börnum skuli eiga rétt á sambærilegu leyfi frá störfum og foreldrar sem missa barn, líkt og núverandi löggjöf gerir ráð fyrir. Ég held að við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að eftirlifandi foreldri geti leitað sér og barni sínu viðeigandi aðhlynningar og búið sig undir framtíðina við gjörbreyttar aðstæður, svo ég noti orðalag í umsögn Sorgarmiðstöðvarinnar við frumvarpið á sínum tíma sem varð hér að lögum. Ég tel því mikilvægt, eins og ég hef reyndar áður sagt hér á Alþingi, að skoða vel hvort ekki sé rétt að gera breytingar á lögum um einkaleyfi þannig að foreldri barns eða barna sem missir maka geti átt rétt á sambærilegu sorgarleyfi og foreldri sem verður fyrir barnsmissi, sem er í rauninni það sem þingmál hv. þingmanns fjallar um. Í þessu ljósi höfum við nú þegar í ráðuneyti mínu hafið vinnu við að greina hvað breytingar sem þessar hafa í för með sér og þar með talið, því að hv. þingmaður kom líka inn á það, hvaða áhrif það myndi hafa á útgjöld ríkissjóðs sem er auðvitað eitthvað sem við þurfum að gera okkur grein fyrir.

Mig langaði líka að nefna að í ráðuneytinu hjá mér stendur yfir vinna við að skoða tillögur sem samtökin Gleym mér ei hafa rætt við mig en fyrir þau sem það ekki vita er Gleym mér ei styrktarfélag til stuðnings foreldrum sem missa barn á meðgöngu og í eða eftir fæðingu. Tillögur þeirra snúa m.a. að breytingum í tengslum við rétt foreldris í kjölfar fósturláts þannig að réttur foreldra í slíkum tilvikum verði sambærilegri þeim rétti sem foreldrar fá í kjölfar andvana fæðingar.

Þannig að ég er bara mjög ánægður með að hv. þingmaður skuli taka málið upp, bæði þingmálið en líka þessa fyrirspurn hérna á Alþingi, vegna þess að ég held að hún muni ýta við okkur öllum til að taka þessi mál lengra. Sennilega erum við öll sammála um að það ættum við að gera, spurningin er hvenær og, eins og ég segi, það er hafin vinna við að greina þessa þætti í ráðuneytinu hjá mér.