154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

réttur eftirlifandi foreldris til sorgarleyfis.

333. mál
[17:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Ég verð að segja að það gladdi mig mjög að heyra jákvæð viðbrögð hans. Með þessari lagabreytingu yrðum við líka fyrst Norðurlanda. Ég man vel eftir því þegar þetta frumvarp var hér til meðferðar, þ.e. varðandi rétt foreldra sem missa barn. Þá veitti ég einmitt andsvör og fagnaði þessu skrefi en benti á að næsta eðlilega skref að taka yrði að jafna stöðu þessara fjölskyldna, af því að hér erum við auðvitað líka, og mér finnst það vera viðbótarrök í málinu, að horfa á sérstakan og sértækan stuðning við barn á viðkvæmum tíma í lífi þess. Ég er sannfærð um að hér sé um litla lagabreytingu fyrir Alþingi að ræða en gríðarlega mikilvægt skref fyrir þessar fjölskyldur sem hér um ræðir. Þess vegna gladdi það mig mjög að heyra jákvæð viðbrögð hæstv. ráðherra.

Mig langaði til að nefna það sérstaklega af því að ráðherrann nefndi skilgreiningu hugtaksins foreldris að ég fór þá leið, einmitt vegna þess að fjölskyldumynstur og aðstæður í lífi barna eru mismunandi og ólíkar og markmiðið er vitaskuld að ná utan um það, að foreldri er þess vegna skilgreint með sama hætti, sem sagt víðari hætti en almennt er í lögum, til að aðrir nánir aðstandendur barns sem hafa verið í foreldrahlutverki geti fengið þennan rétt. Ég sé að umsagnir um þetta mál, frá Sorgarmiðstöð einmitt en líka frá stéttarfélögum, BHM og BSRB t.d., hafa verið jákvæðar í þessa veruna.

Mig langar í lokin til að segja af því að hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega samtökin Gleym mér ei að ég þekki sjálf til þeirra og ég tel að sú breyting, ekki síst fyrir þá foreldra sem eru að missa fóstur upp að 22 vikum þegar við förum að tala um andvana fæðingar en tilfinningin er hin sama, að hér sé um barnsmissi að ræða — að það skipti máli að jafna rétt með tilliti til þessa hóps.