154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

opinber störf á landsbyggðinni.

346. mál
[17:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um opinber störf á landsbyggðinni. Fyrirspurnin er í fimm liðum og er kannski til marks um það sem segir í byggðaáætlun sem hefur verið samþykkt, með leyfi forseta:

„Sköpuð verði fjölbreytt og verðmæt störf um land allt og stuðlað að sem jafnastri dreifingu starfa. Til að styðja við byggðaþróun og búsetufrelsi verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.“

Ég hef átt svona samtöl í gegnum tíðina nokkrum sinnum áður frá því ég byrjaði á þingi af því að mér hefur fundist ganga hægt að fjölga störfum í dreifðum byggðum. En núna er fjarvinnsla, fjarfundir og fjarvinna allt saman orðið raunveruleiki margra, ekki síst eftir Covid, og ég tel að það væri heillaspor fyrir landsbyggðirnar að gert yrði enn betur í þessum efnum. Það rennir líka stoðum undir það sem ég hef haldið fram í mörg ár, að störfum almennt og ekki síst á vegum hins opinbera er mörgum vel hægt að sinna án tiltekinnar staðsetningar. En svo mætti kannski segja að störf ættu að hafa staðsetningu þannig að þau fari ekki í burtu ef t.d. viðkomandi aðili ákveður að flytja.

Fyrir þær stofnanir sem voru lengst komnar í þessu þegar Covid skall á hafði samkomubannið minni áhrif heldur en hjá þeim sem börðust gegn straumi tímans, af því að það er ekki lögmál að stofnanir og störf á þeirra vegum þurfi öll að vera á suðvesturhorninu. Til langs tíma þóttu fjarfundir og fjarvinna óyfirstíganleg hindrun í atvinnusköpun á landsbyggðunum og mörgum þótti það óhugsandi að stofnanir gætu verið með dreifðar starfsstöðvar um landið. Þetta viðhorf hvarf á einni nóttu þegar öll þau sem höfðu möguleika á voru beinlínis skikkuð til að vinna heima. Það eru einmitt stofnanir eins og sýslumenn, sem heyra undir hæstv. ráðherra, sem eru með dreifðar starfsstöðvar úti um allt land. Mikilvægt er að þeim störfum fjölgi fremur en fækki og að verkefnum undirstofnana verði af hálfu ráðuneytisins komið þannig fyrir, sé það möguleiki. Það er mikilvægt að meta kosti þess, ekki síst með nýja starfsemi, að setja hana niður í dreifðum byggðum. Það hefur of lítið verið gert af því að mínu mati og gjarnan færð rök fyrir því að henni sé betur fyrir komið á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að við sem búum á landsbyggðinni sjáum mikil tækifæri í því að hún geti verið dreifð.

Í fjárlaganefnd var við vinnslu fjárlagafrumvarpsins rætt um störf án staðsetningar og mikilvægi þess að fjölga slíkum störfum, enda er það á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Það er mat meiri hlutans í fjárlaganefnd að hið opinbera þurfi að gera betur í þeim efnum en hlutfallslega eru of fá störf úti á landi á vegum hins opinbera að okkar mati. Fjölgun starfa úti á landi hefur líka mjög jákvæð áhrif, ekki síst innan hlutaðeigandi sveitarfélaga með tilliti til fjölbreyttari starfa, en víða er atvinnulíf í hinum dreifðu byggðum með einhæfasta móti. Í umsögnum fjölda sveitarfélaga kom einmitt fram að því miður fækki störfum á vegum ríkisins of mikið og er iðulega skorið niður þar. Hér liggja því fyrir fimm spurningar sem ég trúi að ráðherra bregðist við.