154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

opinber störf á landsbyggðinni.

346. mál
[17:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðaust. fyrir fyrirspurnina. Hún er, eins og hér hefur komið fram, í nokkrum liðum og ég ætla að byrja á því að svara hvernig ég sem ráðherra hyggst framfylgja stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að því er snertir fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.

Ráðherra er mjög umhugað um að framfylgja stjórnarsáttmálanum um fjölgun starfa á landsbyggðinni þrátt fyrir áform í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár um fækkun opinberra starfa. Hvað sýslumannsembætti varðar hef ég þegar hrundið af stað vinnu innan ráðuneytisins við frekari stefnumótun í málefnum sýslumanna með það að meginmarkmiði að bæta þjónustu embættanna á landsvísu. Auk stefnumótunar hef ég lagt áherslu á að unnið verði áfram m.a. með eftirfarandi aðgerðir, sem að mínu mati fara vel saman við áherslur stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036.

Þar ber fyrst að nefna tilfærslu starfa innan málaflokksins. Hugmyndin er að færa í auknum mæli verkefni og starfsfólk til embætta sýslumanna á landsbyggðinni með það að markmiði að efla þjónustuna, stuðla að jöfnu aðgengi almennings að opinberri þjónustu og tryggja betur rekstrargrundvöll embættanna. Með þeim viðbótarfjárheimildum sem fengust með fjárlögum ársins 2023, þ.e. 120 millj. kr. fyrir árið 2023 og 60 millj. kr. fyrir árið 2024, er ætlunin að styðja við stafrænar umbreytingar hjá sýslumannsembættunum þannig að auðveldara verði að færa verkefni sem flokka má sem óstaðbundin frá höfuðborginni til landsbyggðarembættanna. Undirbúningur er þegar hafinn.

Nú kem ég að nýjum verkefnum frá öðrum ríkisaðilum, en undanfarin ár hefur ráðuneytið haft samráð við önnur ráðuneyti og stjórnvöld í þeim tilgangi að leita nýrra verkefna fyrir sýslumannsembættin. Ljóst þykir að með fjölgun verkefna skapast tækifæri fyrir frekari sérhæfingu, verkaskiptingu og samvinnu milli sýslumannsembætta á landsvísu, enda sé horft til þess að verkefnin megi vinna hvar og hvenær sem er óháð staðsetningu þjónustuþega. Sem dæmi hefur ráðuneytið unnið að því að færa starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumannsins á Norðurlandi vestra hinn 1. janúar næstkomandi.

Aukin notkun þjónustusamninga milli ríkisaðila. Meðal aðgerða til að vega þar á móti hagræðingarkröfum er aukið samstarf sýslumannsembættanna við sveitarfélögin, aðra ríkisaðila og eftir atvikum einkaaðila við að standa vörð um þjónustu við íbúa hvers svæðis. Ég sé fyrir mér fjölgun þjónustusamninga næstu misserin og þá sérstaklega þar sem langt er í næstu starfsstöð sýslumanns. Ég sé fyrir mér að sýslumenn verði miðstöðvar ríkisins í héraði. Ég legg mikla áherslu á að sýslumannsembættin sinni áfram því hlutverki sem hefur einkennt embættin á landsbyggðinni um áraraðir, sem er að vera miðstöð ríkisins í héraði. Ekki er aðeins um að ræða áherslumál mitt heldur hefur þessi aðgerð jafnframt stoð í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036, sbr. aðgerð A.8. Stjórnsýslustöðvar ríkis í héraði. Ekki þykir annað tækt en að tryggja öllum landsmönnum jafnt aðgengi að opinberri þjónustu og þegar stjórnvaldið sem á í hlut er fjarri þjónustuþega er mikilvægt að hægt sé að leita eftir aðstoð sýslumanna til að fylgja erindunum eftir. Á þetta jafnt við um rafræna þjónustu hins opinbera á Ísland.is sem og aðra þjónustu.

En hver hefur þróunin verið varðandi fjölgun opinberra starfa á starfsstöðvum undirstofnana ráðuneytisins það sem af er kjörtímabilinu? Á milli áranna 2021 og 2022 hefur starfsmannafjöldi undirstofnana aukist sem nemur 90 stöðugildum. Þessi fjölgun er fyrst og fremst í löggæslumálum og í fullnustukerfinu þar sem áherslur ráðuneytisins hafa fyrst og fremst verið þar á þessu kjörtímabili. Á árinu 2023 er áfram verið að bæta í og er gert ráð fyrir að störfum fjölgi verulega á þessu ári í sömu málefni. Niðurstöður ráðninga liggja þó ekki að fullu fyrir. Aðrar stofnanir hafa sætt áframhaldandi hagræðingu og gefur það augaleið að þegar fyrir liggur hagræðingarkrafa upp á 1–2% á ári, og allt upp í 4,5% eins og mælt er fyrir, stendur stofnunum fá önnur úrræði til boða en að hagræða í stærsta útgjaldaliðnum.

Á fjárlögum 2022 er sérstakt framlag veitt í aðgerðir gegn kynferðisbrotum. Á árinu 2022 hófst undirbúningur að aðgerðum til styrkingar lögreglunnar í landinu þar sem sjónum var sérstaklega beint að landsbyggðinni. Markmið aðgerðanna var að styrkja embætti lögreglu á landsbyggðinni.

Mér gefst ekki tími til að klára þannig að ég verð að gera það í seinni ræðu.