154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Sameining framhaldsskóla.

[14:33]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa mikilvægu umræðu og tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og fagna umræðu um framhaldsskólastigið hér á þingi. Það er óhætt að segja að þau áform sem ráðherra kynnti síðastliðið vor hafi valdið titringi eins og allar boðaðar breytingar gera, og jafnvel hugmyndir að breytingum eins og hér. Ég skil það sem svo af orðum hæstv. ráðherra að hann hyggist ekki ætla að halda áfram með boðaðar hugmyndir um sameiningar framhaldsskóla en vinna standi yfir við að kortleggja áskoranirnar betur eins og hæstv. ráðherra fór yfir í sinni framsögu og tilgreindi þar ákveðna hópa nemenda.

Virðulegi forseti. Ég er ekki endilega ósammála því að hægt sé að ná fram aukinni samlegð og betri árangri með sameiningu framhaldsskóla en forsendan þarf þá að vera fagleg svo að ná megi samlegð í þágu nemendanna út frá þeirra eigin áhugasviði og markmiðum; fatlaðra nemenda sem sækja á starfsbrautir, nemenda af erlendum uppruna, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í sinni ræðu, nemenda sem hafa sýnt aukinn áhuga á verknámi en líka nemenda sem sækja í bóknám. Til að hægt sé að mæta þessum hópum öllum þarf flóra skólanna að vera fjölbreytt. Þetta snýst því kannski fyrst og síðast um valfrelsi ungs fólks, eins og málshefjandi sagði áðan, frekar en sameiningu sameiningarinnar vegna.

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem skilja má af orðum hæstv. ráðherra að hann ætli að staldra aðeins við, skoða málin frekar og betur með hagsmuni fjölbreyttra nemenda að leiðarljósi og hlakka til að sjá betur ofan í þá vinnu hæstv. ráðherra þegar niðurstöður hennar liggja fyrir.