154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Sameining framhaldsskóla.

[14:35]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Framhaldsskólarnir hafa fjölþætt hlutverk í samfélaginu en fyrst og fremst er mikilvægt að þeir geti boðið öllum ungmennum þessa lands upp á fjölbreytt nám og stutt við farsæld þeirra. Skólarnir hafa líka býsna stórt hlutverk í símenntun eða fullorðinsfræðslu og þurfa að geta tekið á móti fullorðnum námsmönnum, m.a. í kjölfar raunfærnimats.

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og vekja athygli á því að staða raunfærnimatsins er aðeins óljós núna og þar er úrbóta þörf. Megináskorunin sem við stöndum frammi fyrir núna í framhaldsskólakerfinu er langþráð; loksins hefur tekist að auka eftirspurnina eftir iðn- og starfsnámi. Frábærar fréttir, en þær þýða líka að ýmislegt þarf að hugsa upp á nýtt. Sumt er einfalt, eins og að beina námsmönnum á milli skóla þegar námshópur á einum stað er orðinn fullur en pláss er annars staðar, en annað kallar á meiri yfirlegu.

Það þarf ekki bara að mæta breyttri eftirspurn eftir námi. Það þarf líka að mæta fjölbreyttari hópi þar sem nú fara ungmenni nær undantekningarlaust í framhaldsskóla. Og þá þarf líka að mæta fleiri tvítyngdum nemendum sem eru á öllum stigum í íslenskufærni, sumir fæddir hér á landi en aðrir nýkomnir til landsins.

Við þurfum að fara í breytingar en mikilvægt er að skólasamfélögin um allt land fái tækifæri til að móta sýn og ólíkar útfærslur í samræmi við aðstæður og ólíkar þarfir nemenda. Á sama tíma þarf að horfa á stóru myndina og markmið um menntastefnu.

Við þurfum framhaldsskólakerfi sem getur tekið á móti fleiri verk- og iðnnemum, býður fjölbreytt og gott bóknám, mætir innflytjendum þar sem þeir eru staddir og tekur á móti þeim sem þurfa starfsbrautarúrræði án vandræðagangs. Það á að vera keppikefli að gera úrræði félagsþjónustu og Vinnumálastofnunar fyrir ungt fólk á framhaldsskólaaldri óþörf. (Forseti hringir.) Við þurfum að geta mætt öllum á þessum aldri innan framhaldsskólakerfisins, gæti fjármagn fylgt einstaklingunum til 18 ára aldurs.