154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Sameining framhaldsskóla.

[14:43]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér eru ræddar mögulegar sameiningar framhaldsskóla og tilgangurinn með þeim. Í hverju tilviki verður að skoða vel markmið með þeim aðgerðum og að sú vegferð styrki skólana. Fjármagnsskortur virðist þó hafa verið meginástæða mögulegrar sameiningar Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri. Í upphafi var þó bæði áhersla á hagræði og styrkingu skólanna en miklar efasemdir komu fljótt fram. Í ljós kom að engar breytingar voru áformaðar á fjárveitingum til skólanna er til sameiningar þeirra kæmi.

Hálfdán Örnólfsson, fyrrverandi aðstoðarskólameistari við Verkmenntaskólann á Akureyri, birti grein í lok september. Hann gefur þar í skyn að Menntaskólinn á Akureyri hafi farið verr út úr ferlinu við styttingu náms en nokkur annar skóli árið 2018. Skólinn hafi þar misst út fjórðung nemenda og tíunda hluta fjárveitinganna. Skólinn hafi síðan ekki fengið heimild til að fjölga nemendum þrátt fyrir nægilega aðsókn, ólíkt mörgum öðrum skólum.

Hvernig á skólinn að geta verið fjárhagslega sjálfbær ef hann fær ekki fjármagn með öllum þeim nemendum sem kjósa að sækja nám í þeim skóla? Rekstrarörðugleikar skólans væru því líklega hverfandi ef skólinn hefði fengið tækifæri til að fjölga þeim nemendum og fullnýta þannig skólann.

Hver þingmaður af öðrum í Norðausturkjördæmi hefur stigið fram og lýst yfir áhyggjum og mótstöðu við þessar sameiningarhugleiðingar. Ég leggst hér einnig á þær árar með þeim, með þá áherslu að skólarnir fái áfram að reka sig sem sjálfstæða skóla. Gefum þeim tækifæri á að nýta tækifæri sín til að efla sjálfbærni skólanna. Sameining skólanna mun ekki styrkja stöðu menntunar úti á landi heldur þvert á móti. Fjölbreytileikinn verður minni með fækkun valkosta fyrir nemendur. Það viljum við ekki og það getur ekki verið tilgangur sameiningar.