154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Sameining framhaldsskóla.

[14:55]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu, ég held að það sé allt of sjaldan sem við tökum umræðu um menntamál í þessum sal og því vil ég fagna og þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég vil líka segja að ég er hjartanlega sammála mörgum þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar þegar við ræðum um mikilvægi þess að efla verknám, þegar við ræðum um mikilvægi þess að mæta ólíkum hópum, þegar við ræðum um mikilvægi valfrelsis, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi. Ef við ætlum að ræða valfrelsi þá þurfum við líka að vera trygg með þá hópa sem menntastefnan okkar, sem er mjög metnaðarfull, gerir ráð fyrir að við ætlum að gera betur í að ná til, ná til ákveðinna hópa inni í skólunum, við þurfum að vera meðvituð um það að við þurfum að hafa aflið til að ná þessum hópum og fylgja þeim eftir. Hver nemandi í verknámi kostar meira en hefðbundinn nemandi í bóknámi. Hver nemandi með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn — við þurfum aukinn slagkraft til að aðstoða þessa nemendur við að komast í gegnum framhaldsskólakerfið. Það þarf meira fjármagn að fylgja þeim nemendum sem fara inn á starfsbrautir, sem eru að stækka. Það er hugsunin sem var á bak við þessa vinnu, að auka slagkraftinn til þess að mæta þessum nemendum. Það er hægt að gera, eins og ég hef sagt, annars vegar með nýju fjármagni eða með einhvers konar sparnaði, af því að það orð er notað, eða þá auknum slagkrafti inni í kerfinu. Hugsunin hefur ekki verið sú að skera niður framhaldsskólakerfið. Það er aukning framlaga á næstu árum en hún er ekki það mikil að maður geti með góðu móti sagt að á næstu tveimur til þremur árum getum við mætt öllum þeim sem framhaldsskólakerfið þarf að taka við. Þess vegna höfum við verið í samtali um aukið fjármagn. Það mun skýrast vonandi á næstu vikum þegar kynntar verða tillögur fyrir 2. umræðu fjárlaga en ekki hvað síst um fjármálaáætlun. Hér er spurt hvað þurfi til þess að við breytum þessu. Við þurfum að hafa algerlega skýrt svar við því og trúa því, hvort sem það er þing eða ríkisstjórn, að við getum mætt þessum nemendum sem eru að koma inn í kerfið á næstu árum og það er hin lögbundna skylda. (Forseti hringir.) Það er það sem ég tek með mér og það er það sem ég finn líka að er mikill stuðningur við hér á þingi. (Forseti hringir.) Ég hlakka til þess að við kynnum nýja tímalínu í þessum málum þar sem maður getur sagt með góðri samvisku, í fullri trú, að menntakerfið sé fyrir alla og við ætlum að mæta öllum.