154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

ákvörðun nr. 190/2022 um breytingar á XI. viðauka við EES-samninginn o.fl.

383. mál
[15:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd fjórar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar frá árunum 2022 og 2023 sem gera breytingar á V., VIII., IX., XI. og XIII. viðauka EES-samningsins.

Ég ætla hér að segja í stuttu máli frá hverri ákvörðun fyrir sig. Það er þá í fyrsta lagi að tekin er fyrir ákvörðun nr. 190/2022. Hún fellir inn í EES-samninginn tilskipun sem uppfærir eldri reglur varðandi endurnot opinberra gagna í samræmi við auknar kröfur og tækniframfarir. Settar eru lágmarksreglur um endurnot opinberra upplýsinga. Markmiðið er að örva stafræna nýsköpun, einkum hvað varðar gervigreind. Einnig er tilgangurinn að fullnýta þau tækifæri sem felast í upplýsingum frá hinu opinbera fyrir hagkerfi og samfélag. Byggt er á þeirri meginreglu að flest opinber gögn eigi að vera unnt að endurnota, bæði í hagnaðarskyni og öðrum tilgangi. Nánari upplýsingar um innleiðingu verður að finna í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um endurnot opinberra upplýsinga, nr. 45/2018, sem gert er ráð fyrir að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggi fram á þessu löggjafarþingi.

Í öðru lagi er það ákvörðun nr. 191/2022. Með henni er tekin inn í EES-samninginn tilskipun sem færir til nútímans gildandi reglur um losun úrgangs frá skipum sem nota hafnir á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig eru gerðar umbætur á aðgengi að og notkun fullnægjandi móttökuaðstöðu í höfnum og afhendingu úrgangs þangað, til að skipaumferð gangi snurðulaust fyrir sig. Fyrirhugað er að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra leggi fram á þessu löggjafarþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, til innleiðingar á gerðinni.

Í þriðja lagi fellir ákvörðun nr. 17/2023 inn í samninginn framkvæmdarreglugerð sem setur reglur um það hvernig skrár um raunverulega eigendur lögaðila og fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila í EES-ríkjunum verði samtengdar í gegnum miðlægan vettvang. Markmiðið er að vinna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Menningar- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, á þessu löggjafarþingi, til innleiðingar gerðarinnar.

Að lokum er það ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2023. Með henni er tekin inn í EES-samninginn reglugerð sem ætlað er að auka öryggi kennivottorða, persónuskilríkja og dvalarskjala sem gefin eru út til handa þeim sem nýta sér réttinn til frjálsrar farar. Í því skyni eru kröfur til slíkra skilríkja samræmdar, m.a. varðandi snið skilríkja og lesanleika þeirra. Reglugerðin var innleidd með nýjum lögum um nafnskírteini sem voru samþykkt á Alþingi 8. júní síðastliðinn, nr. 55/2023, og munu öðlast gildi 1. desember næstkomandi.

Virðulegi forseti. Haft var samráð við utanríkismálanefnd Alþingis vegna upptöku umræddra gerða í samninginn sem gerði ekki athugasemdir við upptöku þeirra á þann hátt sem þingsályktunartillagan tilgreinir. Þá skal það tekið fram að þessar ákvarðanir fela ekki í sér aukinn kostnað eða kvaðir fyrir fyrirtæki eða einstaklinga. Nánari upplýsingar um áhrif innleiðingar gerðanna má finna í meðfylgjandi tillögu til þingsályktunar en ég legg til að þegar þessari umræðu lýkur verði tillögunni vísað til utanríkismálanefndar.